137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[19:25]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hlý orð frá hv. þingmanni í minn garð. Í framhaldi af því að þetta mál er komið fram tel ég það þess virði að við nefndarvinnu skoði hv. allsherjarnefnd hvernig hægt væri að ná þessum tilgangi frumvarpsins fram. Það kynni þá að þýða að með frumvarpinu fylgi einhvers konar tillögur að breytingum á stjórnarskrá, vegna þess að verði frumvarpið að lögum er mjög mikilvægt að búið sé að fastsetja nákvæmlega hvernig þessir hlutir eigi að ganga fram. Við þær aðstæður sem mundi reyna á eitthvað slíkt má gefa sér það að slíkar deilur séu uppi í þjóðfélaginu að mjög nauðsynlegt sé að enginn vafi leiki á um gildi slíkra ákvarðana, málsmeðferð eða neitt það sem menn gætu sett hornin í. Ég leyfi mér að tala um hildarleik sem þá væri kominn upp ef á reyndi — eins og gerðist einmitt í janúar, þegar reyndi á þingrof eða það að ríkisstjórn hrökklaðist frá, það væri nauðsynlegt að hafa slíkan ramma allan á hreinu. Þetta skiptir líka máli — eins og ég nefndi í andsvari mínu við ræðu tillöguflytjanda, hv. þm. Birgittu Jónsdóttur — út af þeirri umræðu sem við erum í núna varðandi mögulega ESB-aðildarumsókn. Ég er mjög þeirrar skoðunar að þar verði að koma málum þannig fyrir að það verði þjóðin sem eigi síðasta orðið með þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki Alþingi. Það þýðir að slík kosning getur ekki farið fram, þ.e. um aðildarsamning, fyrr en stjórnarskrá hefur verið breytt, þ.e. þing rofið, stjórnarskrá breytt, nýtt þing komið saman og síðan verði það þjóðin sem segir sitt lokaorð.