137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[19:28]
Horfa

Arndís Soffía Sigurðardóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum Borgarahreyfingarinnar fyrir að flytja þetta frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég vil koma því á framfæri að ég er sammála mörgu af því sem hér kemur fram en mig langar þó að ræða sérstaklega fáein atriði.

Þegar hefur verið bent á margt í þessari umræðu en að mínu mati er aðalatriðið það að í 1. gr. frumvarpsins segir að 10% kosningarbærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu með undirskrift sinni. Ég er efnislega sammála því að þjóðin eigi að geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eina sem ég velti fyrir mér er hve mikill fjöldi manna eigi að geta krafist hennar. Mér finnst það beinlínis grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi að almenningur geti veitt þinginu það aðhald sem nauðsynlegt er með því að geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það stóð reyndar til í vor rétt fyrir kosningar að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrána en það hlaut ekki afgreiðslu.

Það sama á við um það sem kemur fram í 1. gr. frumvarpsins um að einn þriðji hluti þingmanna geti krafist þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Ég er sammála því að ekki þurfi meiri hluta Alþingis til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, þingræðið er of veikt að mínu mati og ég tel að þetta muni leiða til aukins þingræðis.

Það hefur verið bent á það af fræðimönnum í stjórnlagarétti að til að niðurstaða í þjóðaratkvæðagreiðslu bindi hendur löggjafans þurfi ákvæði um það að vera í stjórnarskrá. Í fljótu bragði fann ég ekki í frumvarpinu ákvæði um það hvort niðurstaðan ætti að vera bindandi eða ráðgefandi þannig að það er þá bara athugunarefni í þeirri nefndarvinnu sem fram undan er.

Ég set spurningarmerki við þann tímafrest sem frumvarpið boðar frá því að þingsályktunartillaga hefur verið samþykkt á Alþingi eða þjóðaratkvæðagreiðslu krafist og þar til þjóðaratkvæðagreiðsla á að fara fram í síðasta lagi en það er talað um sex mánuði. Kannski er þetta of skammur tími til almennra kynninga á því málefni sem kjósa skal um. Í frumvarpinu er reyndar ekki gert ráð fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram samhliða öðrum kosningum, svo sem sveitarstjórnar-, alþingis- eða forsetakosningum, heldur er þvert á móti tekið fram að slíkt er beinlínis ekki heimilt. Með tilliti til þess er tímaramminn kannski nægur. Hitt er annað mál að ég sé engin sérstök rök hníga til þess að þjóðaratkvæðagreiðslur megi ekki fara fram samhliða öðrum kosningum. Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins koma fram þau rök að slíkt fyrirkomulag væri til þess fallið að draga úr vægi þjóðaratkvæðagreiðslunnar og jafnvel gera hana flóknari. Ég er þessu ekki sammála auk þess sem ég tel að það leiði til óþarfakostnaðar að beinlínis heimila ekki þjóðaratkvæðagreiðslur samhliða öðrum kosningum. Að lokum vil ég taka undir áhyggjur hv. þm. Illuga Gunnarssonar um skort á ákvæði um kjörsókn.

Frú forseti. Eins og þegar hefur komið fram er ég sammála mörgu af því sem í frumvarpinu segir en með þeim tæknilegu fyrirvörum sem ég hef rakið hér.