137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[19:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með það að við eigum góðar umræður um þetta. Ég sakna þess auðvitað að sjá ekki fleiri taka þátt í þessari umræðu og að fleiri þingmenn sýni þessu máli áhuga þegar við ræðum það hér, af því að ég er þeirrar skoðunar að þetta sé eitt af þeim grundvallarmálum sem við þurfum að fjalla um á sumarþinginu. Ég sakna þess auðvitað að sjá ekki, svo ég leyfi mér að fara í flokkspólitískar skotgrafir, fulltrúa ýmissa flokka sem hafa haft mjög hátt um þjóðaratkvæðagreiðslur og lýðræði á undanförnum árum taka þátt í þessari umræðu með neinum hætti. Ég sakna þess.

Hins vegar er það auðvitað þannig að þjóðaratkvæðagreiðslur geta gegnt mjög mikilvægu hlutverki. Þær eiga við að mínu mati í stórum málum. Ég náði ekki að nefna það í ræðu minni áðan en það þarf að hugsa með hvaða hætti komið verði í veg fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsluformið sé misnotað vegna þess að sú hætta er auðvitað fyrir hendi að stjórnkerfið sé lamað með tíðum þjóðaratkvæðagreiðslum. Við höfum konkret dæmi um það t.d. frá Kaliforníuríki í Bandaríkjunum að á undanförnum árum hefur verið tiltölulega auðvelt að fá þar fram þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðaratkvæðagreiðslur hafa í rauninni gert stjórn ríkisins mjög erfiða. Auðvitað er lýðræði grundvallaratriði og háleitt markmið en við þurfum hins vegar alltaf að finna farveg fyrir lýðræðið þannig að það sé framkvæmanlegt. Í flestum Evrópulöndum er fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslna (Forseti hringir.) með þeim hætti að þær fara aðeins fram um hin stærstu mál. Að Sviss undanskildu og raunar Ítalíu er fyrst og fremst verið að kjósa um stórmál sem varða (Forseti hringir.) þjóðarhag en miklar takmarkanir á öðrum atkvæðagreiðslum.