137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[19:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé alveg rétt hjá hv. þm. Birgittu Jónsdóttur að það þurfi ekki að hafa verulegar áhyggjur af þessu. Ég vildi bara nefna þetta við umræðuna vegna þess að það eru dæmi um það frá öðrum löndum að mjög tíðar þjóðaratkvæðagreiðslur hafa haft þau áhrif að stjórn mála hefur farið nokkuð úr skorðum og ég nefndi Kaliforníuríki í Bandaríkjunum. Það má hugsanlega nefna fleiri dæmi frá Bandaríkjunum sem vekja spurningar um hvort takmarka eigi með einhverjum hætti hvaða mál er hægt að bera undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru dæmi um það frá Bandaríkjunum t.d. að framkvæmdar hafi verið almennar atkvæðagreiðslur um mál sem flestir mundu ætla að væru mannréttindamál eins og um hjónaband samkynhneigðra og þess háttar og það hefur verið bannað eða fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu að samkynhneigðir geti gengið í hjúskap. Mér finnst vera ákveðin dæmi þarna sem þarf að vara sig á hvernig svo sem við formum það nákvæmlega.

Hitt dæmið sem ég nefndi var Ítalía þar sem er tiltölulega auðvelt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu miðað við stjórnskipun landsins og stjórn mála á Ítalíu hefur verið nánast alveg frá stríðslokum í miklu uppnámi og á síðustu árum og áratugum hafa þjóðaratkvæðagreiðslur síst hjálpað upp á að koma einhverjum böndum á þá stjórn. Við þurfum alltaf að móta reglur lýðræðisins þannig að þær séu framkvæmanlegar um leið og við gætum auðvitað að grundvallarprinsippinu.