137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[20:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að sum mál séu þess eðlis að það geti verið erfitt að útskýra þau fyrir almenningi. Ég minni á afleiður í bankarekstri o.s.frv. (BirgJ: Fólk kýs ekki um það.) Nei, fólk kýs ekki um það en það gæti reynst erfitt að láta fólk kjósa um það hvort ætti að leyfa afleiður í bankaviðskiptum eða ekki. Sum mál eru því eðli sínu samkvæmt nokkuð flókin en flest mál eru náttúrlega einföld og auðskiljanleg og þau á að sjálfsögðu, ef talin er ástæða til, að greiða atkvæði um.

Ég er alveg sammála því að tiltölulega fáir geti beðið um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það þarf reyndar að vera þannig að það sé ekki alla daga en ég hygg að 10–15% gætu verið ágætismörk. Reyndar eru Facebook og önnur fyrirbæri á netinu þess eðlis að tiltölulega auðvelt er að safna saman hópi manna en að senda þá alla í þessa Lýðræðisstofu til að láta staðfesta undirskriftina getur orðið þrautin þyngri þannig að ég hugsa að 10–15% séu ágætismörk á því.

Það sem ég er að tala um er niðurstaðan, þegar þjóðaratkvæðagreiðsla hefur farið fram, að þá skuli ákveðinn hluti kjósenda samþykkja viðkomandi mál þannig að það gildi. Ég hugsa að með lagafrumvarp, eins og ég gat um, sé hæfilegt að miða við 20–30% og við stjórnarskrárbreytingar 40–50% og með einhver einfaldari mál mætti kannski vera 25%. En það þarf að huga að því og það er ekki orð um það í frumvarpinu og heldur ekki um hvort þetta eigi að vera bindandi, en eins og ég gat um áðan þá getur það ekki verið bindandi út af stjórnarskránni.