137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[20:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Fyrst vildi ég nefna atriði sem var til umræðu síðast þó að það sé í sjálfu sér utan við efni þessa frumvarps strangt til tekið. Það varðar rafrænar kosningar. Ég verð að segja að sú tilraun í Kasakstan sem hv. þm. Pétur H. Blöndal lýsti er auðvitað áhugaverð en það eru ákveðnir ókostir við rafrænar kosningar sem hafa gert það að verkum að ég hef haft ákveðna fyrirvara varðandi það fyrirkomulag. Það er bæði þetta sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi, að þeir sem hanna kerfin hafa auðvitað ákveðið forskot á hinn almenna borgara vegna þess að þeir þekkja þau betur og geta þar með hugsanlega leitað eftir upplýsingum um það hvað hver kýs og þess háttar.

Eins vildi ég nefna að almennt séð, miðað við flest form rafrænna kosninga sem ég hef heyrt um, er auðvitað ákveðin hætta á að um einhvers konar svindl verði að ræða sem hinn almenni borgari getur ekki áttað sig á. Kosturinn við að hafa kosningarnar með þeim hætti sem við þekkjum, að menn merki á atkvæðaseðil o.s.frv., er sá að nánast hver sem er getur tekið þátt í að tékka það af eða ganga úr skugga um að talningin sé rétt. Í rafrænu kosningaformi er alltaf sú hætta fyrir hendi að almenningur verði að treysta á sérfræðinga, tiltölulega fáa sérfræðinga. Mér finnst það ákveðið lýðræðisatriði að almenningur eða fulltrúar almennings, fulltrúar flokka eða einstaklingar sem taka þátt í kjörstjórnarvinnu geti gengið úr skugga um að allt sé rétt talið og allt hafi farið rétt fram eins og kostur er, en því flóknari tæknibúnaður og tæknileiðir sem búa að baki þeim mun erfiðara er fyrir almenning að ganga úr skugga um að allt sé með réttum hætti og þar með eykst í rauninni vald sérfræðinganna sem er í mínum huga ákveðið atriði sem þarf að varast.

Þetta er eins og ég segi til hliðar við umræðuefnið strangt til tekið. Það verður áhugavert að sjá hvernig mönnum gengur að fylgja þessu eftir í Kasakstan og satt að segja virðast menn — miðað við lýsingar hv. þm. Péturs H. Blöndals sem hann hefur farið yfir í samtölum sem við höfum átt, ítarlegri lýsing á því fyrirkomulagi sem hann vék hér að — hafa verið býsna hugkvæmir þar, sýnt mikla hugkvæmni við að útfæra þetta þannig að það hafi verið búnir til ákveðnir póstar þar sem hægt var að skoða hlutina og tékka þá af.

Varðandi þetta mál og mál ríkisstjórnarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslur almennt vildi ég segja að auðvitað þurfum við að koma þessari löggjöf í gagnið, við þurfum að koma henni í gegn, við þurfum hins vegar að vanda undirbúninginn og vanda valið. Ég vildi koma þeirri áskorun á framfæri við hv. þingmenn, við þingheim, að menn flýti sér ekki um of við þetta verkefni vegna einhvers þrýstings út af hugsanlegri kosningu um Evrópusambandið, því að ég minni á að það er ekkert í spilunum um það á þessari stundu hvort efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið í náinni framtíð eða ekki.