137. löggjafarþing — 25. fundur,  26. júní 2009.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það samkomulag sem hefur verið kynnt og kennt við Icesave-reikningana svokölluðu er þess eðlis að eftir því sem maður skoðar það betur því verr líst manni á það. Nú síðast hafa verið umræður um þá staðreynd að svo virðist vera sem vaxtagreiðslur muni allar falla óskipt á íslenska ríkið og mun það valda þjóðarbúinu miklum búsifjum og erfiðleikum að standa í skilum við slíkt. Það vekur athygli að í dag birtist í Morgunblaðinu og er sagt frá bréfi sem Frida Fallan, sérfræðingur í sænska seðlabankanum, sendi aðstoðarseðlabankastjóra sínum, Lars Nyberg, í byrjun desember 2008. Í því bréfi kemur fram, með leyfi forseta:

„Ísland hefur komið verr út úr kreppunni en nokkuð annað Evrópuland, og er fyrir vikið þjakað af hrikalegri skuldabyrði. Því ættu sérstaklega gistiríki íslensku bankanna, og ESB-leiðtogar almennt, að viðurkenna að vandamál Íslands er ekki einungis tilkomið vegna óábyrgra lánveitinga og ófullnægjandi viðbragða íslenskra stjórnvalda, heldur að miklu leyti líka vegna úrelts eftirlitskerfis ESB.“

Þetta skiptir miklu máli, akkúrat þetta sjónarmið. Það er mat margra að það sé óásættanlegt að Ísland beri eitt ábyrgðina á Icesave-reikningunum og það sé eðlilegt, rétt eins og kemur fram hjá þessum sérfræðingi hjá sænska seðlabankanum, að gistiríkin og ríki ESB almennt komi til móts við Ísland. Þess vegna tel ég ástæðu til þess að spyrja hv. þm. Helga Hjörvar hvort hann geti tekið undir með mér og verið sammála mér um að þessi skoðun sænska bankasérfræðingsins eigi rétt á sér og að það sé ástæða fyrir okkur til að sækja fastar á með að þetta sjónarmið njóti skilnings gistiríkjanna og ríkja ESB almennt.