137. löggjafarþing — 25. fundur,  26. júní 2009.

stöðugleikasáttmáli -- Icesave -- heilsutengd ferðaþjónusta -- raforkuverð til garðyrkjubænda.

[13:49]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að viðbrögð formanns Sjálfstæðisflokksins komu mér svolítið á óvart, að hann skyldi fagna stöðugleikasáttmálanum en treysta síðan ekki ríkisstjórninni og þar með ekki aðilum vinnumarkaðarins til þess að framfylgja þessum sáttmála. Mér fannst það vera svolítið aumingjalegt að taka undir með þessum hætti. Ég hefði átt von á því að Sjálfstæðisflokkurinn mundi fagna því að þessir aðilar, Samtök atvinnulífsins og vinnumarkaðurinn í heild, kæmu sér saman um markmið, hvort sem það væru skattahækkanir, vaxtakjör eða vaxtaumhverfi, gengismál o.s.frv. þar sem menn hafa lofað því að taka sameiginlega á málum. Ég auglýsi þá eftir betri upplýsingum frá hv. þingmanni og formanni Sjálfstæðisflokksins um afstöðu Sjálfstæðisflokksins.

Ég held að það sé afar mikilvægt að við náum saman sem flestum á þennan vagn, að menn fylki sér saman um þær lausnir sem grípa þarf til. Verkefnið er mjög stórt og það er hlálegt að hlusta á það að flokkar sem haldið hafa um stjórnartaumana áratugum saman skuli ætla að fría sig af ábyrgðinni á því sem hér hefur gerst þegar við fáum stjórnartaumana í hendur og reynum að vinna að lausn mála.

Ég sat á fundi í gærkvöldi þar sem menn sögðu: Það er ekkert glæsilegt að þurfa að hækka skatta, það er ekki gaman að þurfa að grípa til þeirra aðgerða en við verðum bara að sætta okkur við þetta, þetta eru frjálshyggjuskattar eða útrásarskattar, eins og þessir aðilar kölluðu það. Þeir bitna á okkur vegna þess að við höfum stjórnað samfélaginu mjög illa á undanförnum árum. (Gripið fram í: … skatta?) Já, það má kalla það það. Þegar menn nota öll úrræðin sem við áttum að nota í góðærinu og bjuggu til þensluna, bjuggu til froðuna, bjuggu til allt það sem við glímum við að leiðrétta núna (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) og ætla svo að fría sig ábyrgð þegar þarf að fara að taka á þessu í framhaldinu. (Gripið fram í.)

Ég skora á Sjálfstæðisflokkinn að axla nú ábyrgð á því sem gerst hefur (Forseti hringir.) og koma með á vagninn þannig að við getum leyst þessi mál í sátt og samlyndi.