137. löggjafarþing — 25. fundur,  26. júní 2009.

stöðugleikasáttmáli -- Icesave -- heilsutengd ferðaþjónusta -- raforkuverð til garðyrkjubænda.

[13:52]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig hafa komið því ágætlega til skila áðan að auðvitað fagna ég því að menn hafi gert með sér samkomulag og að það ríki þá friður á vinnumarkaði, ég tók það sérstaklega fram að mér finnst að aðilar vinnumarkaðarins hafi sýnt mikla ábyrgð. En ég sagði líka að þeir hefðu sýnt ríkisstjórninni mikið langlundargeð. Ég áskil mér allan rétt til að hafa mína skoðun á því plani sem ríkisstjórnin hefur kynnt þeim.

Við skulum athuga eitt, ríkisstjórnin kynnti fyrir aðilum vinnumarkaðarins hvað hún hygðist gera árin 2012 og 2013. Tókst samkomulag um það? Nei. Hvers vegna var það? Það var vegna þess að ríkisstjórnin ætlaði að hækka skatta áfram, ekki bara árið 2009 heldur líka árið 2010 og árið 2011. Svo ætlar hún að gera það sama árin 2012 og 2013. Þess vegna er ekkert samkomulag við aðila vinnumarkaðarins um þau ár.

Ég er þeirrar skoðunar að þær miklu skattahækkanir sem nú er verið að boða geti orðið til þess að atvinnuleysi aukist. Á sama tíma auka menn tryggingagjaldið til þess að standa undir atvinnuleysisbótunum. Auknir skattar draga úr getu fyrirtækjanna til þess að ráða til sín fólk, það er bara þannig. Auknar álögur eins og tryggingagjaldið draga úr getu fyrirtækjanna og svigrúmi þeirra til þess að skapa ný störf. Af þessu hef ég áhyggjur, ég tel að það geti skapað ákveðinn spíral.

Við höfum bent á leiðir til þess að auka tekjur ríkisins án þess að koma með nýjar álögur. Undir þær hafa hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og fleiri ráðherrar tekið sem og margir þingmenn úr báðum stjórnarflokkum. En ekki tókst samkomulag um það við aðila vinnumarkaðarins og ég verð að lýsa furðu á því hversu tilbúnir aðilar vinnumarkaðarins eru til þess að samþykkja yfir sig nýjar álögur, nýja skatta vegna þeirra neikvæðu afleiðinga sem ég tel að það geti haft fyrir hagkerfið og getu þess til þess að skapa ný störf.

Fyrr en varir mun fólk á Íslandi rísa upp og krefjast aðgerða til þess að skapa ný störf. Þess vegna eru menn á harðahlaupum (Forseti hringir.) núna, Samfylkingin frá fyrningarleiðinni, er búin að pakka henni niður í kassa og grafa hana, og Vinstri grænir á harðahlaupum frá andstöðu sinni við stóriðju og orkufrekan iðnað. Það kemur fram í stöðugleikasáttmálanum.