137. löggjafarþing — 25. fundur,  26. júní 2009.

stöðugleikasáttmáli -- Icesave -- heilsutengd ferðaþjónusta -- raforkuverð til garðyrkjubænda.

[13:59]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að taka vel í þessa hugmynd eða þetta atriði sem ég vakti máls á áðan varðandi Heilsufélag Reykjaness. Ég treysti því að við fáum stuðning frá Samfylkingunni, samstarfsflokki ráðherrans í ríkisstjórninni, við að ýta á hæstv. ráðherra. Það sem ég varð þó að segja hér, og veldur mér ákveðnum vonbrigðum, er að þingmaðurinn virtist ekki skilja hversu mikið liggur á að fá úr þessu skorið. Ég held að ég þurfi að hvetja þingmanninn til að leggjast á árarnar með okkur, þetta snýst ekkert um að endurskoða heilbrigðiskerfið í heild, eins og þingmaðurinn rakti og hæstv. ráðherra hefur borið fyrir sig, heldur snýst þetta um að taka eina ákvörðun, um að leyfa notkun á skurðstofu sem er annars ekki í notkun. Það er rétt sem fram kom hjá þingmanninum Björgvini G. Sigurðssyni, það er ekki verið að skerða þjónustu eins eða neins, þvert á móti mun þetta, ef eitthvað, leiða til bættrar þjónustu fyrir íbúa á Suðurnesjum vegna þess að þarna verður tryggari rekstur skurðstofu og tryggari rekstur heilbrigðisstofnunar fyrir vikið.

Ég hvet Samfylkinguna og þingmenn Vinstri grænna sem vilja kynna sér þetta mál til að leggjast nú á árarnar með okkur í kjölfar þess sem hér var rætt um áðan, um stöðugleikasáttmálann. Ég tek undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni að við sköttum okkur ekki út úr þessari kreppu, heldur sköpum störf. Og þarna, á svæði þar sem 1.800 manns ganga atvinnulaus, er lykilatriði að við nýtum öll þau tækifæri sem við höfum til að skapa störf. Við getum ekki látið það sjónarmið Vinstri grænna að af því að „einka“ kemur einhvers staðar fyrir (Forseti hringir.) í þessu sambandi verði þetta að vera dæmt ógilt og ónýtt. Þetta er ekki álver, virðulegi forseti, þetta er heilbrigðisþjónusta eins og bæjarstjórinn í Reykjanesbæ orðaði það og ég treysti því að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) sem kemur hér upp á eftir mér (Forseti hringir.) taki nú vel í þetta mál.