137. löggjafarþing — 25. fundur,  26. júní 2009.

stöðugleikasáttmáli -- Icesave -- heilsutengd ferðaþjónusta -- raforkuverð til garðyrkjubænda.

[14:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er eitt rétt í málflutningi sjálfstæðismanna, það að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld, þ.e. ríki, sveitarfélög og lífeyrissjóðir, sýna mikla ábyrgð með aðild sinni að stöðugleikasáttmálanum. Stóra spurningin er: Hvar er ábyrgð Sjálfstæðisflokksins? Er það ekki dálítið kúnstugt (Gripið fram í.) að heyra hina nýju forustu sjálfstæðismanna koma hér upp með gamaldags klisjukenndan áróður og æpa um skatta. Eitt hefur þó ekkert breyst, andlegur leiðtogi nýja Sjálfstæðisflokksins er áfram ókrýndur og óumdeildur Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Þessi málflutningur þeirra er beint upp úr frjálshyggjubókunum.

Veruleikinn er sá að þeir sem sátu við þetta borð, stóðu frammi fyrir alvöru og stærð málsins, nálguðust það af raunsæi og skynsemi og út úr því kom að ekki er hægt að gera þetta öðruvísi en að fara blandaða leið. Það er alveg rétt að það er athyglisvert að t.d. Samtök atvinnulífsins fallast á það að þetta hátt hlutfall tekjuöflunar er óumflýjanlegt ef menn ætla að ná dæminu saman. Það er í góðu samræmi við það sem upp var lagt með af hálfu stjórnvalda í þessari vinnu og í samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um stöðugleika almennt að þarna verði farin blönduð leið. Nákvæmlega í hvaða hlutföllum hún endar, hvort það eru skattar í 45% fyrstu þrjú árin, til eða frá um einhverjar prósentur, eru ekki stór atriði heldur hitt að menn ætla sér í þetta verkefni. Það eru tímamótin og það er það gleðilega og ég hefði talið Sjálfstæðisflokknum hollara að stilla sér á bak við það og vera með í því verkefni að takast á við þetta en að hlaupa svona upp eins og hér er gert.

Skýrslan sem verður andlag þessarar umræðu kemur vonandi á borð þingmanna eftir nokkrar mínútur og getur orðið (Forseti hringir.) á næstu dögum, frú forseti, vænti ég undirlag góðrar umræðu um þetta mál og þá vænti ég að þingmenn Sjálfstæðisflokksins verði búnir að lesa hana vandlega og hugsa sitt ráð, draga andann djúpt í nokkra daga og kannski verður annað hljóð í þeim þá þegar þeir koma til umræðu um þessi mál. (Gripið fram í.)