137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[15:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hef framsögu fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og skattanefndar vegna ráðstafana í ríkisfjármálum sem hv. þingmenn geta fundið á þskj. 174 og þeim breytingartillögum sem meiri hluti nefndarinnar leggur til við þessa umræðu og finna má á þskj. 175.

Ég vil þakka nefndarmönnum í efnahags- og skattanefnd, bæði í meiri hluta og minni hluta, fyrir góða samvinnu við úrvinnslu málsins. Það ber að með þeim hætti að það er brýnt að hraða úrlausn og umfjöllun málsins til að áhrif þess geti tekið gildi þegar nú um mánaðamótin. Ég þakka hv. stjórnarandstöðu fyrir að greiða fyrir framgangi málsins og sömuleiðis fyrir ýmsar ágætar ábendingar um það sem betur mætti fara í vinnslu þess. En rétt er að geta þess að auk þeirra tillagna sem hér liggja fyrir mega þingmenn eiga von á frumvarpi er lýtur að lánsfjárheimildum ríkissjóðs sem sömuleiðis þurfa á næstu vikum að liggja fyrir vegna þeirra verkefna sem til umfjöllunar hafa verið í þinginu og menn þekkja til.

Það frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem hér liggur fyrir er ekki óskamál nokkurs manns. Hér er verið að skatta og skera niður til að mæta framúrkeyrslu í ríkisfjármálum og brúa það geysilega bil sem er í rekstri ríkissjóðs en að óbreyttu er það svo að við sem nú lifum rekum ríkissjóð með 500 millj. kr. halla á hverjum einasta degi vikunnar. Með því erum við auðvitað að skerða möguleika komandi kynslóða til lífskjara og verður ekki undan því vikist að mæta þessum mikla hallarekstri með ýmsum ákvörðunum sem sannarlega verða þingmönnum þungbærar, margar, enda lúta þær að ýmsum framfaramálum sem barist hefur verið fyrir og náð hefur verið í gegn. Aðrar eru sem betur fer aðeins um eðlilega hagræðingu og sparnað í rekstri og það að taka til baka atriði sem valda kostnaði og betur mega sannarlega fara.

Hv. efnahags- og skattanefnd fékk tilhlýðilegar fastanefndir þingsins til að fjalla um þá liði sem einkum lúta að útgjaldaþættinum, hv. fjárlaganefnd, hv. allsherjarnefnd og hv. félags- og tryggingamálanefnd og liggja umsagnir þeirra nefnda fyrir um þau atriði sem að þeim sneru og geri ég ráð fyrir að gerð verði grein fyrir þeim sérstaklega en þær umsagnir fylgja sömuleiðis álitinu í fylgiskjali og geta þingmenn kynnt sér þar álit nefndanna. Efnahags- og skattanefnd fjallaði einkanlega um það sem að henni snýr, tekjuhlið málsins en þar eru allnokkur atriði eins og hv. þingmenn þekkja frá 1. umr. málsins. Þar er stærsta og viðamesta tekjuöflunaraðgerðin sú sem lýtur að tryggingagjaldinu, að bæta fyrir þau miklu útgjöld sem bæði Atvinnuleysistryggingasjóður og Ábyrgðasjóður launa hafa orðið fyrir á þessu ári og verða fyrirsjáanlega fyrir á næstu mánuðum og missirum. Þar er um að ræða skattlagningu sem á ársgrundvelli mun skila um 12,5 milljörðum kr. og á m.a. rót sína að rekja til frumkvæðis Samtaka atvinnulífsins í því að draga það fram að fyrir því er löng venja í íslensku samfélagi að með tryggingagjaldinu sé staðið undir útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs og að skattgreiðendur hafi ekki með beinum hætti borið kostnað af því í tekjusköttum sínum eða öðrum sköttum og því sé það fyrst og fremst raunsæi að á þeim erfiðu tímum sem við nú búum við í ríkisfjármálum og munum gera um margra ára skeið verði tryggingagjaldið eftir sem áður að standa undir útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs og í ljósi þess mikla atvinnuleysis sem nú er í landinu, nærfellt 20 þúsund manns, sé nauðsynlegt að hækka gjaldið. Verður að segja að það er nokkuð hraustlega gert af fulltrúum atvinnulífsins að taka með þessum hætti á málum því að auðvitað mun þetta leggjast nokkuð þungt á ýmis fyrirtæki þó að sem betur fer séu mörg fyrirtæki í landinu í stakk búin til þess að bera þetta.

Í öðru lagi er um að ræða tvær tímabundnar tillögur sem ná til síðari hluta yfirstandandi árs. Þær lúta annars vegar að sérstökum tekjuskatti á tekjur yfir 700 þús. kr. á mánuði sem nemur 8% og síðan sömuleiðis að því að fjármagnstekjur umfram ákveðin lágmörk, lágmörk sem ætla má að séu vaxtaafrakstur af venjulegum sparnaði hjá venjulegu launafólki, að vaxtatekjur umfram það sæti skattlagningu á síðari hluta ársins sem nemi 15%. Í meðförum nefndarinnar tók það þeim breytingum að það er gert ráð fyrir því að skattlagningin verði þegar með þeim hætti en að þeir sem í lægri skattprósentu eru njóti þeirra leiðréttinga í uppgjöri á sköttum ársins á næsta ári. Bæði tryggir það að tekjurnar koma til skila í ár þegar við þurfum á þeim að halda og eins er auðveldara og ódýrara um alla framkvæmd á þessum þætti málsins sé því skipað á þennan veg.

Þá voru tvö atriði er lutu að tekjuöfluninni sem segja má að hafi einkum fengið nokkra umræðu í umfjöllun nefndarinnar og athugasemdum þeirra gesta sem fyrir hana komu og umsagnaraðila. Þar er fyrst til að taka fyrirætlun um það að skattleggja hér á landi vaxtatekjur sem menn hafa frá öðrum löndum. Það atriði hefur vakið nokkrar áhyggjur í atvinnulífinu, m.a. um mögulega gjaldfellingu á lánum sem menn þar hafa og um kostnaðarauka við það lánsfjármagn sem fyrirtækin hafa en þau hafa auðvitað, mörg hver, þurft að bera mjög þungan fjármagnskostnað á undanförnum mánuðum og því eðlilegt að slíkar áhyggjur rísi. Í tilfellum langflestra viðskiptalanda okkar er það svo að við höfum tvísköttunarsamninga þannig að þar eiga aðilar út af fyrir sig að vera jafnsettir en þó er nokkur hluti af viðskiptalöndum okkar þar sem þetta sama fyrirkomulag er í viðkomandi ríki, þ.e. ef Íslendingar hafa vaxtatekjur í því landi þá er það skattlagt í því landi og út af fyrir sig eðlilegt að horfa til þess að við gætum samkvæmni í því og sköttum þær þjóðir með sama hætti og þær skatta okkur. Því er ekki að leyna að þetta ákvæði er auðvitað að talsverðu leyti sett fram til þess að draga úr möguleikum manna á skattasniðgöngu, að flytja fé milli ríkja til að sniðganga skattalöggjöf hér, og það ræður miklu um með hvaða hætti þessi lagaheimild verður síðan útfærð og takmörkuð í reglugerð frá hæstv. fjármálaráðherra. Það var niðurstaða nefndarinnar að kalla eftir því að hæstv. fjármálaráðherra kynni fyrir efnahags- og skattanefnd þær takmarkanir sem settar verða á beitingu ákvæðisins í reglugerð áður en hún tekur gildi þannig að það megi sem allra mest lágmarka hin neikvæðu áhrif af þessari aðgerð. En sannarlega eru umtalsverðir ávinningar í því fólgnir bæði að varna skattasniðgöngu og sömuleiðis að tryggja ríkissjóði við þessar aðstæður tekjur á næstu árum af vaxtatekjum erlendra aðila hér á landi.

Þá hlaut allnokkra umfjöllun í meðförum nefndarinnar það atriði að hækka virðisaukaskatt á sælgæti, gos og aðrar vörur með sjónarmiðum um að auka gjaldtöku á sykur í landinu og ekki örgrannt um að við þá umfjöllun hafi komið fram að það að beita þessari aðferð getur falið í sér að gjöld hækki á ýmsar vörur sem ekki var ætlunin að hækka eins og vatn, djús og aðrar slíkar vörur en komi þó ekki á sykurmola eða aðra slíka hluti sem menn höfðu ætlað að mundu sæta skattlagningunni. Stafar það af því að fjármálaráðuneytið og hæstv. ríkisstjórn höfðu upphaflega fyrirætlanir um að leggja þessi gjöld á með líkum hætti og hér var áður gert og gert er í nágrannalandi okkar, Danmörku til að mynda, í gegnum vörugjaldakerfið sem leiddi sannarlega til þess að skattlagning af þessu tagi mundi vera miklu samkvæmari í sjálfu sér í því að hún legðist þá sannarlega á sykur við innflutning og kæmi þannig inn í vöruverð þar sem sykur er notaður.

Samtök iðnaðarins höfðu síðan aðra tillögu um útfærslu vörugjalda sem nefndin ákvað að láta reyna á á milli 1. og 2. umr. og fór fram allnokkur skoðun á þeim tillögum og hvort unnt væri að verða við þeim sjónarmiðum Samtaka iðnaðarins sem fram komu í umsögn þeirra og tillöguflutningi. Það varð þó niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að sýnt væri af umsögnum þeirra sérfræðinga sem við höfum á að skipa í tollamálum og Evrópuréttinum að hér væru, á þeim tillögum sem þar lágu fyrir, þeir annmarkar sem ætla mætti að við yrðum gerð afturreka með vegna þess að það mismunaði aðilum á Evrópska efnahagssvæðinu, en slíkum úrskurði höfum við út af fyrir sig áður orðið fyrir þegar reynt var að hafa 25% álag á þessa vöruflokka og því treysti meiri hlutinn sér ekki til að gera tillögur um að fara þá leiðina. Hann hefur hins vegar óskað eftir því að fá frá fjármálaráðuneytinu breytingartillögu við málið sem lýtur að því að fara þá leið sem ráðuneytið ætlaði upphaflega að fara, í gegnum gömlu vörugjöldin til að tryggja það að þetta sé sykurskattur með sanni og leggist einfaldlega á sykur og sykraða vöru en ekki á einstaka vöruflokka sem hafa þá annmarka sem ég hef áður lýst. Geri ég ráð fyrir að í umfjöllun nefndarinnar síðar í dag milli 2. og 3. umr. muni nefndin taka afstöðu til þeirra tillagna og sömuleiðis kann hv. efnahags- og skattanefnd að þurfa að taka afstöðu til atriða er varða Ábyrgðasjóð launa og tengjast m.a. þeim ágæta stöðugleikasáttmála sem hér náðist með aðilum í gær.

Ég vil við þetta tækifæri vekja athygli þingmanna á skýrslu um ríkisfjármál á þskj. 173 þar sem kynnt er sú stóra mynd sem þetta mál er hluti af, þ.e. það gríðarlega verkefni sem við eigum fyrir höndum á næstu árum, að vinna á halla á ríkissjóði sem nemur nærri 200 milljörðum á ári hverju eða eins og ég áður sagði þýðir það að við sem nú lifum erum að reka ríkissjóð með 500 millj. kr. halla á hverjum einasta degi alla daga vikunnar allan ársins hring. Með því erum við auðvitað ekki að gera annað en að leggja skuldir á komandi kynslóðir og draga úr möguleikum þeirra á því að skapa sér góð lífskjör. Það verður þess vegna ekki undan því vikist að taka þær ákvarðanir sem taka þarf til að ná saman þessum hallarekstri. En til að hv. þingmenn átti sig á umfangi þess verkefnis lætur nærri að þetta þýði fyrir meðalheimili í landinu að á hverju ári þurfi það að leggja til hátt í 2 millj. kr. til að við getum í sameiningu náð að loka þessu gati. Auðvitað er það kunnara en frá þurfi að segja að fjölmörg heimili í landinu, tugþúsundir heimila eru á engan hátt í stakk búin til að leggja neitt slíkt af mörkum og því mun þetta auðvitað leggjast með auknum þunga á aðra hópa samfélagsins.

Til að gefa annað dæmi um þau áhrif sem hér er um að ræða þá er það þannig að þetta eru tæplega 200 milljarðar kr. árlega sem við þurfum að sigrast á. Heildarútgjöld til rekstrar allra stofnana ríkisins, menntakerfis, heilbrigðiskerfis, utanríkisþjónustu, félagskerfis og hvað það nú er eru rétt rúmlega 200 milljarðar. Það er bara eiginlega allur ríkisreksturinn sem hér er undir. Hins vegar er uppistaðan í fjármálum ríkisins tilfærslur. Það eru almannatryggingarnar, það eru niðurgreiðslur til bænda, lánasjóðurinn, Atvinnuleysistryggingasjóður og ýmsar þær aðgerðir sem eru til þess gerðar að jafna kjör í landinu og færa fé á milli hópa. Allar þær greiðslur í heild sinni nema rétt liðlega 200 milljörðum. Við erum að tala um verkefni sem lýtur að því að brúa nærfellt helminginn af öllum ríkisrekstrinum og það er auðvitað óhjákvæmilegt að þar þurfi víða að leita fanga og víða að bera niður, bæði í niðurskurði rekstrarútgjalda, í því að draga úr millifærslum og í því að skattleggja. En mestu skiptir að við með þessu máli, um ráðstafanir í ríkisfjármálum og þeirri skýrslu sem hér hefur verið dreift í dag, sköpum trúverðugleika fyrir íslenskt efnahagslíf um að hér sitji Alþingi sem fært sé til að takast á við þessi miklu verkefni og fært um að taka þær erfiðu ákvarðanir sem taka þarf til að hætta þessum hallarekstri, til að skapa landinu á ný lánstraust á alþjóðamörkuðum og til að ná vaxtastiginu í landinu niður til að atvinnulífið megi búa við góð rekstrarskilyrði og að því takist að efla verðmætasköpunina og skapa ný atvinnutækifæri, því að velferð okkar á næstu missirum og árum mun auðvitað hvorki ráðast af niðurskurði í ríkiskerfinu né skattlagningu á almenning heldur fyrst og fremst af því hversu vel okkur tekst að búa atvinnulífinu aðstæður til að efla verðmætasköpunina í landinu á nýjan leik og skapa vinnu fyrir þær þúsundir og aftur þúsundir manna sem hafa verið að missa þennan hornstein velferðarinnar, atvinnuna sjálfa.