137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[15:36]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að grípa þarf til róttækra aðgerða til að ná tökum á ríkisfjármálum. Ef fram heldur sem horfir stefnir í meira en 20 milljarða umframkeyrslu á fjárlögum þessa árs sem samþykkt voru með 153 milljarða halla. Er þá ekki talinn með um 20 milljarða kr. kostnaður sem fellur til vegna verðbóta, láns Seðlabanka Íslands til ríkissjóðs vegna uppgjörs bankabréfanna svokölluðu. Samtals er vandamálið því um 193 milljarðar og ljóst að á því þarf að taka.

Bein áhrif þessa frumvarps og nýsettra laga um hækkun skatta á áfengi, tóbak og eldsneyti eru þau að afkoma ríkissjóðs er sögð batna um 23 milljarða á þessu ári. Áhrifin koma hins vegar mjög misjafnt niður á ólíkum aðilum þjóðfélagsins. Þannig ná skattahækkanir yfir u.þ.b. 13,7 milljarða af þessum bata og sparnaður um 9,4 milljarða, samtals rúmir 23 milljarðar.

Það er hægt að brjóta þetta enn frekar niður. Skattahækkanir á heimili eru í kringum 6,2 milljarðar, skattar á atvinnulífið eru í kringum 7 milljarðar á þessu ári og aðrar skattahækkanir eða réttara sagt hert skatteftirlit er þá ábyrgt fyrir afganginum sem er í kringum 500 milljónir.

Það er athyglisvert að skoða hvar á að spara. Sparnaðurinn kemur fram á þrem stöðum. Í fyrsta lagi í rekstri hins opinbera, þ.e. aðhald í stjórnsýslu, þar á að spara 1,8 milljarða. Tilfærslur, þ.e. sjúkratryggingar, fæðingarorlof, elli- og örorkulífeyrir, önnur sértæk tilfærsluframlög, þar á að spara 3,1 milljarð. Þá á að fresta framkvæmdum, bæði vegaframkvæmdum og öðrum framkvæmdum og það telur samtals um 4,4 milljarða.

Afkoman bætist þá þannig að 60% af bætingunni eiga að koma í gegnum skattahækkanir og hert skatteftirlit, 14% eiga að koma í gegnum skerðingu bóta, 19% eiga að koma í gegnum frestun framkvæmda og — það sem er athyglisvert — 8% með sparnaði í rekstri hins opinbera. Það er ábyrgðin.

Það sem við í minni hlutanum höfum jafnframt gert er að reyna að leggja mat á hver þjóðhagsleg áhrif frumvarpsins eru. Þar skiptum við áhrifunum annars vegar niður í svokölluð fyrstu umferðar áhrif og hins vegar annarrar umferðar áhrif eða það sem í daglegu tali eru kölluð margfeldisáhrif.

Fyrstu umferðar áhrifin eru þau að dregnir verða 23 milljarðar út úr hagkerfinu á þessu ári og 63 á því næsta. Það skiptist á þann veg á þessu ári að 9,3 milljarðar koma frá heimilunum, 11,4 frá atvinnulífinu og 1,8 frá rekstri hins opinbera. Það er öll ábyrgðin.

Annarrar umferðar áhrifin nema um 46 milljörðum, þ.e. að gert ráð fyrir því að króna sem kastað er út í hagkerfið tvöfaldist í gegnum margfeldisáhrif. Þetta er mjög hógvær forsenda sem við notum hér, t.d. þegar verið er að fjalla um margfaldara við stóriðju er talað um margfaldara upp á 2,5 o.s.frv. Þetta er því hógvært mat hjá okkur. Annarrar umferðar áhrifin eru sem sagt þau að 46 milljarðar eru dregnir út úr hagkerfinu á þessu ári og 126 á því næsta.

Nú ber svo við að laun eru nokkurn veginn fast hlutfall af landsframleiðslunni. Launagreiðslur nema um 70% af vergri landsframleiðslu þannig að það er mjög einfalt að reikna út hver áhrifin af því að draga fé út úr hagkerfinu eru. Árið 2009 mun lækkun launa verða 32 milljarðar. Árið 2010 eða á næsta ári er lækkunin um 88 milljarðar.

Ef við umreiknum enn og gerum ráð fyrir að öll lækkun launa verði með fækkun starfa. Til að setja hlutina í samhengi mun störfum fækka um 915 á þessu ári vegna þessa frumvarps og 2.500 á því næsta. En auðvitað mun ekki öll lækkun launa koma í gegnum fækkun starfa. Hluti mun koma þaðan og hluti mun koma frá lækkun launa almennt í hagkerfinu. Það sem er kannski það alvarlega fyrir utan náttúrlega fækkun starfa er að lækkun launanna mun skila sér í minni beinum og óbeinum sköttum og hærri bótum að öðru óbreyttu. Eftirspurnin og skattgrunnarnir munu dragast saman enn meira sem leiðir til enn meira tekjutaps fyrir ríkissjóð sem þýðir á mannamáli að þetta eru hæpnar forsendur sem hér er byggt á.

Við í minni hlutanum vörum við þessum áhrifum af skattlagningarhluta þessara aðgerða og teljum að við höfum fært góð rök fyrir því að hann kunni að vinna gegn markmiðum aðgerðanna um bættan hag ríkissjóðs þar sem ekki munu nást áætlaðar auknar tekjur af framkvæmdinni vegna eftirspurnar- og skattaáhrifa. Jafnframt er minni hlutinn þeirrar skoðunar að byrðarnar eigi að skiptast á annan veg þannig að stærri hluti afkomubatans eigi að koma frá aðhaldi í rekstri ríkisins og minni umsvifum þess. Okkur finnst skjóta skökku við hverjir eiga að bera byrðarnar. Menn hlífa sér við sparnaði í opinberum rekstri og bera því við að svo langt sé liðið á árið. En þá vil ég minna á að þetta hefur legið fyrir í langan tíma og menn hefðu getað legið undir feldi og hugleitt hvar ætti að spara til að ekki þyrfti að koma til þess sem við sjáum hér, að það eru skattahækkanir og það sem verst er skerðingar bóta ellilífeyrisþega, öryrkja og fleiri sem eiga að standa undir hlutunum vegna þess að menn hafa ekki dug í sér til að koma fram með það hvar á spara í opinberum rekstri.

Í minnihlutaálitinu eru umfangsmiklar umsagnir um hverja og eina grein frumvarpsins. Fram eftir degi og fram á kvöld munu samnefndarmenn mínir í minni hlutanum fara yfir einstakar greinar en þó ætla ég, með leyfi forseta, að draga út eina grein sem ég vil fjalla sérstaklega um. Það er grein sem fjallar um það að erlendir aðilar sem hafa vaxtatekjur af fjármálagjörningum á Íslandi skuli greiða tekjuskatt af þeim greiðslum.

Við heyrðum frá hv. formanni efnahags- og skattanefndar ágæta tölu sem byggir á greinargerð með frumvarpinu um hver áhrifin verða og miðað við þá tölu er þetta alls ekki svo galin skattheimta. En það er ekki allt sem sýnist. Bæði koma fram, að mínu mati, villandi upplýsingar í greinargerðinni auk þess sem ekki er tekið tillit til allra áhrifa og litið er fram hjá veigamiklum áhrifum.

Í fyrsta lagi segir í greinargerð frumvarpsins eitthvað á þá leið að skattlagning vaxta sé nær almenn regla eða það er tónninn í frumvarpinu. Ef við lítum einungis til helstu samanburðarlanda okkar, Norðurlandanna, innheimtir ekkert þeirra almennt skatt af vaxtagreiðslum til aðila sem eru með takmarkaða skattskyldu. Ef litið er til Evrópusambandsins er þar í gildi tilskipun, vaxta- og þóknanatilskipun nr. 2003/49/EB, sem hefur það beinlínis að markmiði að afnema afdráttarskatta á vaxtagreiðslur milli félaga innan sambandsins. Sú fullyrðing í greinargerð frumvarpsins virðist því fullkomlega úr lausu lofti gripin að þetta sé andinn í skattalöggjöf í þeim löndum sem við svo oft berum okkur saman við. Við getum kannski huggað okkur við að það verður þá tekið úr sambandi ef við lendum inni í Evrópusambandinu. En það er annað mál.

Í öðru lagi er það ekki rétt sem segir í greinargerð frumvarpsins og það sem hv. frummælandi sagði áðan að verið sé að skattleggja móttakanda vaxtagreiðslna, þó að það sé vissulega tilgangur þessa ákvæðis. Það verða í raun íslensk fyrirtæki og einstaklingar sem bera afdráttarskattinn af vaxtagreiðslunum. Ástæðan fyrir þessu er sú að lánveitandinn leggur upp með að fá visst endurgjald af lánsfjármagninu og ef kostnaðurinn eykst við lánveitingu, til að mynda vegna afdráttarskattsins er þeim kostnaði velt á lántakann. Í skuldabréfum útgefnum á alþjóðlegum fjármálamarkaði og almennum lánasamningum eru m.a. stöðluð ákvæði í þessa veru, svonefnd „gross-up“ ákvæði. Ég vil kannski endurtaka það að þetta eru stöðluð ákvæði í lánasamningum, að það sé ekki lánveitandi sem beri kostnaðinn heldur sé honum velt sjálfkrafa yfir á lántakandann. Þessi ákvæði fela það í sér að ef eigandi skuldabréfsins þarf að greiða afdráttarskatta af vaxtagreiðslum þá skuldbindur útgefandi bréfsins, þ.e. lántaki, sig til að greiða hærri vexti svo að lánveitandi verði jafnsettur og ef engum skatti væri haldið eftir. Hærra vaxtaálag leiðir því eðli málsins samkvæmt til aukins fjármögnunarkostnaðar hjá lántakanda.

Í nefndarálitinu er tafla á bls. 12 þar sem sýnt er fram á að þetta mun ekki gilda hjá flestum eða öllum þeim ríkjum sem við eigum tvísköttunarsamninga við. En það er ekki allt sem sýnist þar eins og ég mun rekja.

Í þriðja lagi er mikilvægt að leiðrétta ummæli í greinargerð frumvarpsins þar sem segir að í þeim tilfellum þar sem tvísköttunarsamningar eru í gildi ætti skattbyrði móttakanda vaxtanna ekki að aukast því að þeir eiga „rétt á endurgreiðslu/frádrætti í sínu heimaríki“. Raunin er sú að veruleg hætta er á tvísköttun vaxtatekna þrátt fyrir tvísköttunarsamninga þar sem Ísland innheimtir afdráttarskattinn af brúttóvaxtagreiðslu á meðan heimaríki miðar aftur á móti endurgreiðsluna eða frádráttinn yfirleitt við nettóvaxtatekjur. Vegna þessa getur heildarskattlagning vegna vaxtagreiðslna jafnvel orðið hærri en nettótekjur lánveitandans voru vegna lánsins. Afar ólíklegt er að lánveitendur mundu sætta sig við slíkt.

Efnahags- og skattanefnd fékk dæmi um hvernig þetta gæti gerst, dæmi af orkufyrirtæki sem er með lán hjá belgískri fjármálastofnun, en Belgía er eitt af þeim löndum sem við erum með tvísköttunarsamning við, og er sagt að það mundi ekki hafa áhrif til kostnaðarauka fyrir Íslendinga. Þetta dæmi af þessu fyrirtæki er unnið af hinni virtu alþjóðlegu endurskoðunarskrifstofu Deloitte, sem er næstum því jafnoft nefnd í þessum sal og Mats Josefsson. Þar kemur fram ótvírætt að kostnaðurinn af þessu tiltekna láni sem dæmið er tekið um muni aukast um 11 milljónir ef frumvarpið yrði að lögum.

Jafnframt hafa fyrirtæki bent á að komið geti upp sú staða að lánasamningum verði sagt upp í kjölfarið á þessari breytingu vegna þess að forsendur fyrir lánum hafi breyst. Því sem haldið er hér fram eða andi þessarar greinar í frumvarpinu er bara alls ekki réttur. Þetta er raunveruleg hætta og við höfum ítrekað verið vöruð við úr mörgum áttum í nefndinni að þetta gæti orðið hættulegt.

Núna meðan Íslendingar berjast við að fjármagna sig á alþjóðlegum mörkuðum og halda þeim lánum sem þeir eru með á alþjóðlegum mörkuðum væri það algjör firra að tefla þeim samningum í tvísýnu og minnka líkurnar á því að fyrirtæki geti fjármagnað sig á alþjóðlegum mörkuðum vegna þess að við Íslendingar þörfnumst erlends fjármagns svo mjög.

Í fjórða lagi er talsverður fjöldi lánveitenda á alþjóðlegum mörkuðum ekki skattskyldur í sínu heimaríki. Þar má nefna t.d. erlenda lífeyrissjóði og ýmsa fjárfestingarsjóði. Þá er ekki um að ræða neinar skattgreiðslur þessara aðila í þeirra heimaríki og því er enginn skattur í heimaríkinu sem hægt er að nota til að draga greiddan afdráttarskatt hérlendis frá. Afdráttarskatturinn hérlendis er því ófrádráttarbær/óendurgreiðsluhæfur kostnaður fyrir slíka aðila. Af þessum sökum leitast þeir við að veita lán í ríkjum þar sem enginn afdráttarskattur er lagður á vaxtagreiðslur þeim til handa. Ákvæði þetta væri því í raun að fækka þeim aðilum sem tilbúnir væru að fjármagna íslensk fyrirtæki og ekki eru þeir nú svo margir fyrir um þessar mundir.

Menn gætu sagt sem svo að þetta séu bara einhverjir fjárfestingarsjóðir og fjármálastofnanir sem eru í skattaskjólum og við fáum ekki fjármagn þaðan. Þetta er ekki alls kostar rétt vegna þess að þetta ákvæði á einmitt nákvæmlega við um marga lánveitendur íslensku bankanna sem voru hér fyrir hrun, sem eru reyndar orðnir að kröfuhöfum núna. Ef þeir gætu hugsað sér að lána Íslendingum aftur mundi þetta ákvæði væntanlega verða til að letja þá til þess að lána til Íslands.

Óþarfi er að fjölyrða frekar um slæmar afleiðingar þessa ákvæðis fyrir íslenskt atvinnulíf. Verði frumvarpið að lögum mun aðgengi innlendra fyrirtækja að fjármagni á erlendum fjármagnsmörkuðum versna og það litla fjármagn sem stæði til boða yrði dýrara. Íslenskt atvinnulíf þarf nú, sem aldrei fyrr, á virku aðgengi að erlendu lánsfjármagni á viðunandi kjörum að halda.

Það mun skipta sköpum fyrir endurreisn landsins. Ef markmiðið er að loka fyrir skattundanskot, líkt og rætt er um í athugasemdum frumvarpsins, er rétt að benda á að íslensk skattyfirvöld hafa nú þegar heimildir til þess að líta fram hjá viðskiptum sem fela í sér skattasniðgöngu.

Eins og ég sagði áðan munu nefndarmenn sem standa að þessu minnihlutaáliti koma hér einn af öðrum og ræða einstakar greinar frumvarpsins vegna þess að þetta var einungis toppurinn á ísjakanum sem ég krafsaði í þarna. Þetta frumvarp er unnið af hugsunarleysi, áhrifin af því eru ekki þekkt þannig að minni hlutinn hefur þurft að fara út í einhvers konar hagfræðivinnu til að gera sér grein fyrir hver áhrifin verða á hagkerfið, sem er náttúrlega algjörlega forkastanlegt.