137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til þess að svara þessari spurningu er kannski rétt að vísa beint í ræðu mín áðan. Þar tók ég sérstaklega fram að mér þætti það súrt í broti að ráðast þyrfti hér á öryrkja og aldraða og þá sem eru á bótum til þess að standa undir þeim sparnaði sem hæstv. ríkisstjórn hefur kynnt okkur. (JónG: Það er leið jafnaðarmannaflokkanna.) Já, það er leið jafnaðarmannaflokkanna, þakka þér fyrir það, hv. þingmaður.

Sú leið sem ég vil fara er ekki að fjármagna þetta með því að skera niður bætur til fatlaðra. Það er barnalegur útúrsnúningur að gefa það í skyn. Rétt eins og hv. þm. Helgi Hjörvar benti hér á er rekstur ríkisins rúmir 200 milljarðar og ef mér skjátlast ekki er þar af einhverju að taka. Við þurfum ekki að ráðast á fatlaða, við þurfum ekki að ráðast á öryrkja, við þurfum ekki að ráðast á aldraða þrátt fyrir að jafnaðarflokkarnir vilji gera það.

Þetta er engin hagfræði. Þetta er bara að vera maður og kunna að finna til með samborgurum sínum, hv. þingmaður.