137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður Tryggvi Þór Herbertsson er talsmaður okkar í minni hlutanum og hefur hér reifað helstu ákvæði tillögu minni hlutans. Þó eru nokkrar greinar sem ég ætla að fylgja betur eftir.

Það hefur komið fram í þessari umræðu og á síðustu dögum að þær aðgerðir sem þessi svokallaða vinstri velferðarstjórn er að fara í eru mjög sársaukafullar fyrir heimilin og fjölskyldurnar í landinu og er mér tjáð í hv. efnahags- og skattanefnd að það sé hluti af prógrammi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hafa aðgerðirnar í niðurskurði sársaukafullar fyrir heimilin og fjölskyldurnar í landinu. Sálfræðin á bak við það er víst að gera okkur trúverðug í augum heimsins þannig að það sjáist svo sannarlega að það sé verið að taka á málunum og er þetta frumvarp sem hér liggur fyrir með niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar í raun og veru fórnarkostnaðurinn fyrir því. Það er afar einkennilegt, sérstaklega í ljósi þess að sjálfstæðismenn hafa lagt fram algjörlega frábæra tillögu um tekjur ríkissjóðs. Meira að segja hafa þeir helmingað hana og bent á tillögu varðandi það að skattleggja tekjur lífeyrissjóðanna við innborgun en ekki útborgun upp á 40 milljarða og skil ég í raun ekki af hverju þessi tillaga er ekki skoðuð betur. Henni hefur í raun verið hafnað af ríkisstjórninni eins og öllum öðrum góðum tillögum sem frá stjórnarandstöðunni koma. Í stað þess er ráðist á lítilmagnann. Það er verið að ráðast hér á eldri borgara og það er verið að ráðast á ellilífeyrisþega. Með þessu frumvarpi er ráðist á alla þá sem höllum fæti standa.

Bendi ég hér, fyrir utan það sem ég hef minnst á, á 5. gr. frumvarpsins. Það er að vísu aðeins utan þess sem ég er að tala um að verið sé að ráðast á. 5. gr. fjallar um að fjármálafyrirtækin séu engan veginn í stakk búin til þess að taka á þeim erfiðleikum og kostnaði sem því fylgir að skipta greiðslunum upp í fjögur skipti á ári. Það komu aðilar fyrir nefndina sem ítrekuðu það. Lögin eiga að taka gildi 1. júlí og það er ekki búið að vinna neinn grundvöll eða undirbúningsvinnu fyrir því að þetta sé hægt þannig að það er nú eitt af því sem er svo skrýtið í þessu.

En nú ætla ég að tala um þá sem minna mega sín og þá sem eiga undir högg að sækja og sýna fram á það hvernig þessi ríkisstjórn er að höggva skarð í raðir þeirra sem mega sín minna. Það er til dæmis gjafsóknarákvæðið í 20 gr. Þar er lagt til að það verði stórkostlega lækkað. Gjafsóknarákvæðið var endurskoðað í fyrra á Alþingi og þar voru gjafsóknarákvæðin mjög þrengd. Nú á að lækka það enn frekar. Þetta er algjörlega óásættanleg aðgerð að okkar mati sem að minnihlutaálitinu standa því að þegar upp er staðið er það grunnréttur hvers einstaklings að geta — þ.e. ef réttur er á einstaklingi brotinn þá er það grunnréttur hans í lýðræðisríki að geta sótt rétt sinn og fengið til þess gjafsókn ef viðkomandi hefur ekki nógu mikið fé til þess að sækja hann. Þarna er enn verið að höggva í það og skilar þetta örfáum milljónum í ríkissjóð eins og raunverulega kannski flestar þessar tillögur sem hér liggja fyrir, 20. gr., 21., 22. og 29., þannig að það er verið að vega að þeim sem minnst mega sín.

Önnur grein er 21. gr. Það er mjög alvarlegt að þar er verið að spara eða skera niður. Í 21. gr. og 22. gr. er fjallað um þá sem taka að sér varnir fyrir þá sem lenda í erfiðum sakamálum, eru fórnarlömb erfiðra sakamála. Þetta er um verjendur þeirra og réttargæslumenn. Réttargæslumenn vinna mjög gott starf og oft og tíðum eru þetta erfið störf því að þeir fá sína umbjóðendur sem hafa lent í alvarlegustu brotunum samkvæmt hegningarlögunum. Þá erum við að tala um jafnvel morð, nauðganir og kynferðisafbrot. Það er verið að leggja til að laun þeirra verði lækkuð og svo verjenda þeirra aðila sem er skipaður verjandi.

Að mínu mati er þetta alveg einstaklega óeðlilegt því að við höfum horft fram á að það er að brotna upp úr þessu réttarríki sem við búum í. Hér er löggjafinn að fara fram með óvandaða löggjöf eins og ég hef sagt áður. Hér á landi er ekki, samkvæmt fréttum í síðustu viku, hægt að fullnusta refsingar því að dæmdir aðilar, þeir sem hafa dæmdir verið til að greiða sekt greiða ekki. Það er sífellt verið að þrengja að þessu og það er sífellt að molna undan réttarríkinu. Þetta er enn eitt dæmið um það að jafnvel þeir sem lenda í þessu óvart — oft og tíðum er þetta árásir eða annað slíkt — fá kannski ekki bestu aðilana til þess að verja sig eða flytja mál sitt fyrir dómstólum. Þarna er jafnvel verið að búa til einhverja leið til þess að þeir aðilar sem þessi skilyrði uppfylla, þ.e. lögfræðingar og lögmenn, að þeir kannski sorterast þarna inn sem fá ekki vinnu annars staðar. Þessir aðilar eiga að verja og halda uppi réttindum fyrir þá sem hafa lent í svona alvarlegum brotum.

Ég geld mikinn varhuga við þessu og svo fyrir utan það er ríkisstjórnin með framlagningu þessa frumvarps að leggja það til að rétturinn til — dómstólaráð hefur hingað til ákvarðað laun þessara aðila. En nú er sá réttur tekinn af því og þetta er fyrsta og ekki eina skiptið sem löggjafanum er ætlað að ryðjast inn í sjálfskipaðar stjórnsýslunefndir sem eru þannig skipaðar að löggjafinn á ekkert að hafa með þær að gera eins og ég benti á áður í ræðu, kjararáð, og nú síðast í 29. gr. er löggjafanum ætlað að rjúka inn í sjálfstætt starfandi stjórnsýslunefnd, sem er óbyggðanefnd og setja lög um að störf hennar frestist.

Þetta eru algjörlega óásættanleg vinnubrögð hvernig er farið fram með þetta frumvarp eins og önnur sem þessi ríkisstjórn leggur fram, sem sýnir það að tíminn er naumur. Það vita allir. En nú er þó nokkuð liðið frá kosningum og enn þá lengra liðið frá því að þessi ríkisstjórn tók formlega við þannig að ég spyr enn og aftur: Hvað hafa þessir flokkar verið að gera? Út af hverju er ekki einhver löglærður maður, einstaklingur sem situr við hliðina á þessari ríkisstjórn, heldur í höndina á henni og segir hvað megi og hvað ekki og hvað skarist á við lög og hvað ekki og jafnvel hvað skarist hér á við stjórnarskrá og hvað ekki? Það er algjörlega ófært að löggjafarvaldið sé orðið þannig raunverulega núna að það er farið að valta yfir nefndir sem það hefur ekkert með að valta yfir því að framkvæmdarvaldið valtar svo þar á undan yfir löggjafarvaldið.

Ég er mjög hugsi yfir þessari þróun sem hefur átt sér stað eftir hrunið. Ég er mjög hugsi yfir því hvernig allt er orðið laust í reipunum. Ég er mjög hugsi yfir því hvernig framkvæmdin er orðin og ég er mjög hugsi yfir því til dæmis hvernig rannsóknaraðilar starfa. Við verðum að taka okkur saman í andlitinu. Löggjafinn verður að fara hér eftir þeim lögum sem hann setur sjálfur. Það er grunnskilyrði til þess að við getum búið hér í alvöruréttarríki því að ef löggjafinn tekur ekki mark á sér sjálfur hvernig eiga þá þegnarnir sem eiga að fara eftir lögunum sem Alþingi setur að fara eftir þeim?

Þetta eru þær athugasemdir sem ég geri við þetta nefndarálit minni hlutans. Ég gæti haldið hér langar ræður um þær greinar sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson fór yfir. En til þess að spara tíma og vera ekki að tvítyggja og þrítyggja hlutina þá skiptum við þessu svona niður. Ég læt þessu lokið að sinni og ég vonast til að þær lagagreinar sem ég hef hér talað fyrir fái meðferð og þeim verði breytt í meðförum þingsins.