137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:12]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég stíg í ræðustól Alþingis til þess að mæla fyrir áliti meiri hluta í hv. félags- og tryggingamálanefnd. Hv. efnahags- og skattanefnd fól okkur að fjalla um þá þætti frumvarpsins sem lúta að málefnum sem falla undir félags- og tryggingamál. Hv. þm. Helgi Hjörvar hefur þegar greint frá breytingum á tryggingagjaldi og gjaldi í Ábyrgðasjóð launa en nefndin fjallaði auk þessara mála um breytingu á lögum um almannatryggingar þar sem lögð er til lækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar auk þess sem afnumin verði heimild ellilífeyrisþega til að velja á milli frítekjumarks og þess að telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar. Þá er lögð til skerðing grunnlífeyris vegna lífeyrissjóðstekna, skerðing aldurstengdra örorkubóta vegna tekna og hækkun skerðingarhlutfalls tekjutrygginga. Að lokum er lagt til að sett verði sérstakt frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar.

Auk þessara breytinga er lagt til að skerðingarhlutfall tekjutryggingar hækki úr 38,38% í 45% frá næstu mánaðamótum til loka ársins 2013 og er þar með horfið til þess skerðingarhlutfalls sem var í gildi á árinu 2006 en það hefur farið lækkandi undanfarin ár.

Hv. þingmönnum úr minni hluta hefur verið hér tíðrætt um níðingsverk núverandi stjórnar í garð öryrkja og ellilífeyrisþega. Það er merkilegt að hlusta á þessi orð í ljósi þess að það var Samfylkingin og formaður hennar, hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra, sem beitti sér af alefli fyrir því að leiðrétta kjör þessara hópa eftir langa valdasetu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þar sem kjör örorku- og ellilífeyrisþega höfðu dregist langt aftur úr annarra kjörum.

Virðulegi forseti. Það væri auðvelt fyrir mig að standa hér og barma mér yfir því að þurfa að taka þessar ákvarðanir og okkur í meiri hlutanum, (Gripið fram í.) en þetta eru aðgerðir sem við erum neydd til að grípa til. Þegar við stóðum frammi fyrir þessu verkefni höfðum við þrennt að leiðarljósi. Við ætluðum að tryggja að lífeyrir þeirra sem minnst hafa héldist óbreyttur og við vildum tryggja að ekki drægi úr atvinnuþátttöku öryrkja þannig að þeirra frítekjumark á atvinnutekjur er óbreytt og við lögðum mikið upp úr því að þurfa ekki að setja á makatengingar aftur enda eru þær andsnúnar þeirri mannréttindahugmyndafræði sem bæði Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin vinna út frá.

Fulltrúar hagsmunahópa eldri borgara og öryrkja komu á okkar fund og það er virðingarvert að þessir hópar ítrekuðu að þeir skoruðust ekki undan því að taka á sig byrðar í því ástandi sem nú ríkti. En fulltrúar þessara hópa bentu jafnframt á að þeir telji að einstaklingar í þessum hópi eigi ekki að bera hlutfallslega meiri byrði en aðrir. Þetta tökum við heils hugar undir. Varðandi yfirferð hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar á því hvernig við deildum þessum byrðum þá tel ég rétt að taka hér fram að á árinu 2010 er ekki gert ráð fyrir frekari skerðingum í almannatryggingakerfinu, þ.e. þeim þætti sem varðar bætur til elli- og örorkulífeyrisþega.

Nú er það svo að hér hefur verið harmað, frú forseti, að við göngum ekki lengra í niðurskurði, að við tökum of mikið inn í sköttum og að við skerðum of mikið í bótum. Við förum inn í bæturnar núna. Við munum ekki fara inn þær frekar á næsta ári. Síðan get ég glatt hv. þingmenn ... (TÞH: ... bara 11 milljarðar á næsta ári ...) Ekki í elli- og örorkulífeyrisgreiðslum. (Gripið fram í: ...greiðslan.) (TÞH: Elli og örorkulífeyririnn er 3,7 milljarðar. Það er ...) Já, það eru heildarársáhrifin af þessum skerðingum á næsta ári.

Ég get glatt hv. þingmenn með því, ef það er þeim gleðiefni, að árunum 2011, 2012 og 2013 verður enn haldið áfram að fara inn í reksturinn. (Gripið fram í: Þetta er ekki í ...) Þá getum við staðið hér væntanlega og fagnað því saman. Það verður áhugavert að heyra ánægjuna með það. En hvað varðar breytinguna sem laut að óbyggðanefnd þá mátti þar augljóslega alls ekki skera. Þegar það kemur inn í reksturinn er hér tillaga ... (Gripið fram í.) Já, það má vel vera. En ég held að það væri ... (TÞH: Þetta er nú alveg fyrir neðan ... sko.) (Gripið fram í: ... ekki atkvæðagreiðslu.)

Virðulegi forseti. Ég ætla að lesa hér um heildaráhrif úr áliti meiri hluta nefndarinnar, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn hefur fullan skilning á aðhaldsþörf í ríkisfjármálum í því ástandi sem nú ríkir en áréttar þó að aldraðir og öryrkjar eru þeir þjóðfélagsþegnar sem búið hafa við hvað bágust kjör ... Nefndin ræddi breytingar sem ætlað er að auka tekjur ríkissjóðs sem og draga úr útgjöldum. Áætluð tekjuaukning af breytingum I. og II. kafla er 12,5 milljarðar kr. á ársgrundvelli eða 7 milljarðar kr. á árinu 2009. Sparnaður af breytingum á lögum um fæðingar- og foreldraorlof er áætlaður um 350 millj. kr. á ársgrundvelli og með breytingunum á lögum um almannatryggingar er gert ráð fyrir heildarsparnaði um 3.650 millj. kr. á ársgrundvelli. Þær breytingar sem lagðar eru til á almannatryggingum hafa áhrif á um 28 þúsund elli- og örorkulífeyrisþega. Ljóst er því að um víðtækar og miklar breytingar er að ræða. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að heildaraðgerðir til sparnaðar og tekjuauka lendi ekki með mestum þunga á þeim einstaklingum sem tekjulægstir eru. Þá telur meiri hlutinn að þess hafi verið gætt að standa vörð um þá sem verst eru settir. Meiri hlutinn áréttar þörf þess að þrátt fyrir þröngan ríkisbúskap verði gætt þeirra sanngirnis- og jafnræðissjónarmiða sem velferðarkerfi Íslendinga byggist á.“

Þá vil ég einnig taka fram að inn í þetta álit koma tvær breytingartillögur tæknilegs eðlis. Önnur þeirra er ákvæði til bráðabirgða sem tryggir að lækkun frítekjumarks atvinnutekna á lífeyrisþega lendi ekki á örorkulífeyrisþegum. Síðari breytingartillagan felur í sér að breytingar sem gerðar eru á fæðingarorlofi nái jafnframt til barna sem eru ættleidd eða tekin í fóstur.

Undir nefndarálitið skrifuðu Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Guðbjartur Hannesson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir og Guðmundur Steingrímsson, með fyrirvara.