137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:21]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum og mig langar að byrja á því að segja að ég hef kynnt mér nefndarálit meiri hlutans og nefndarálit frá minni hlutanum líka. Ég ætla að leyfa mér að vísa sérstaklega til nefndarálits minni hluta nefndarinnar sem myndaður er af þeim Pétri H. Blöndal og Tryggva Þór Herbertssyni og verð að segja að þar er að finna alveg óvenjugott yfirlit yfir áhrif þeirra aðgerða sem hér er verið að grípa til. Mig langar til að þakka þeim nefndarmönnum sérstaklega fyrir þeirra vinnu og þeirra framlag til þeirrar umræðu sem hér fer fram.

Það er um þetta mál almennt að segja að það ber með sér að ríkisstjórnin ætlar í upphafi að vinna á þeim mikla vanda sem við er að fást með því að leggja áherslu á aukna skattheimtu, með hækkun skatta. Um þetta vil ég segja að ég held að ríkisstjórnin sé á rangri braut. Ég held að ríkisstjórnin sé um of að einblína á hærri skatta sem uppsprettu nýrra tekna fyrir ríkið. Þetta er býsna alvarlegt mál vegna þess að nýjar álögur á heimilin og fyrirtækin draga ekki bara úr þróttinum í hagkerfinu eins og vikið hefur verið að hér í umræðunni og ágætlega er farið yfir í þessu nefndaráliti sem ég vísaði til heldur mun það beinlínis valda því að sú lægð sem við erum að ganga í gegnum núna getur orðið langvinnari. Það getur tekið okkur lengri tíma ef við förum rangar leiðir núna í upphafi kreppunnar að vinna bug á ástandinu.

Ég vil líka láta þess getið hér í þessari umræðu að það kemur margoft fram af hálfu stjórnarliðanna að það sé dapurlegt að þurfa að ganga á velferðarkerfið, sérstaklega í ljósi þess að fyrri ríkisstjórnir hafi ekki nýtt góðærið til þess að styrkja það, til þess að styrkja velferðarkerfið, að fyrri ríkisstjórnir hafi látið beinlínis undir höfuð leggjast að verja auknum fjármunum til velferðarmála á þeim tímum sem ríkissjóður var aflögufær. Þessar rangfærslur verður að leiðrétta í þessari umræðu.

Ég ætla að leyfa mér að vísa máli mínu til stuðnings í vefrit frá fjármálaráðuneytinu frá því í febrúar, frá 12. febrúar, um það bil tólf dögum eftir að núverandi hæstv. fjármálaráðherra tók þar við lyklavöldunum. Þá kom út ágætisyfirlit yfir útgjöld ríkissjóðs til almannatrygginga og velferðarmála síðustu tíu árin.

Ég ætla að lesa aðeins úr inngangi vefritsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt fjárlögum 2009 verða útgjöld til almannatrygginga og velferðarmála samtals um 127 milljarðar króna. Frá árinu 1999 til ársins 2009 er áætlað að útgjöld í þessum málaflokki aukist um 56 milljarða króna og er þá tekið tillit til verðlagsbreytinga. Það jafngildir 79% aukningu að raungildi.“

Það jafngildir 79% aukningu að raungildi á þessu tíu ára tímabili. Þar með held ég að öll umræðan um að góðærið hafi ekki verið nýtt til þess að styrkja velferðarkerfið, til þess að auka framlög til almannatrygginga og velferðarmála sé endanlega kveðin í kútinn með vefriti fjármálaráðuneytisins sjálfs. Nú nema menn vilji koma hingað upp og hrekja þessar tölur.

Ef við skoðum þetta aðeins nánar sjáum við til dæmis að elli-, örorku- og ekkjulífeyrir hækkaði frá árinu 1999, þegar hann nam 37 milljörðum og rúmum 600 milljónum, 37,6 milljörðum, í 62 milljarða eða um 25 milljarða á ári. Á árinu 2009 er sem sagt verið að leggja upp með elli-, örorku- og ekkjulífeyri 25 milljörðum hærri fjárhæð á ári en var gert árið 1999.

Hér væri hægt að grípa niður í einstaka aðra flokka eins og til dæmis málefni fatlaðra þar sem áður, á árinu 1999 var varið 6,4 milljörðum en á árinu 2009 11,2, þ.e. 4,8 milljarða hækkun í þann málaflokk á ársgrundvelli, á hverju ári. Það er 75% aukning í þann málaflokk. Mestur var samt vöxturinn í atvinnuleysisbótunum. Auðvitað kemur það ekki til af góðu. En afgerandi hækkun var til allra málaflokka yfir þetta tíu ára tímabil. Það er því beinlínis rangt sem haldið er fram í umræðunni um þá skerðingu sem núna er að eiga sér stað í þessum málaflokkum og tengjast öðrum þingmálum sem hér eru til meðferðar í þinginu að þetta sé dapurlegt í ljósi sögunnar. Þvert á móti hafa framlögin verið stóraukin í þessa málaflokka.

Við sjálfstæðismenn höfum einkum bent á tvennt þegar kemur að því hvernig megi bæta fyrir hinn mikla tekjumissi ríkisins. Í fyrsta lagi höfum við vakið athygli á leið til þess að auka tekjurnar með því að gera kerfisbreytingu á skattlagningu lífeyrissjóðsgreiðslna. Það liggur fyrir og var fyrirsjáanlegt reyndar áður en tillagan kom fram að af hálfu aðila vinnumarkaðarins eru settir miklir fyrirvarar við þetta og það er skiljanlegt vegna þeirra hagsmuna sem þar er meðal annars verið að verja. Það er líka skiljanlegt af öðrum ástæðum vegna þess að við höfum sjálfir sagt að með þessu dregur úr þjóðhagslegum sparnaði.

Hafi einhver haldið að Sjálfstæðisflokkurinn væri sá stjórnmálaflokkur á Íslandi sem væri líklegur til þess að koma hér fram á þingið með tillögur um að auka tekjur ríkissjóðs um marga tugi milljarða þá annaðhvort þekkir viðkomandi sögu Sjálfstæðisflokksins ekki vel eða þá hitt að hann gerir sér ekki grein fyrir því hversu óvenjulegar aðstæðurnar eru sem við búum við í dag. Það eru einmitt hinar óvenjulegu aðstæður sem gera það að verkum að við höfum teflt fram þessari hugmynd þrátt fyrir að með henni dragi úr þjóðhagslegum sparnaði. Það er vegna þess að ef menn fara ekki einhverja leið af þessum toga sem eykur tekjur ríkisins án þess að leggja nýjar byrðar á heimilin og atvinnustarfsemina munu menn þurfa að taka afkomubatann allan í gegnum skatta og niðurskurð. Það er einmitt þess vegna sem við erum að gagnrýna það mál sem við ræðum í dag. Í fyrsta lagi hafa menn gengið allt of skammt fram í niðurskurðartillögunum og það er allt of mikil áhersla lögð á skattana. Skattarnir eru ekki óheppilegir bara vegna þess að þeir draga úr framfærslu eða ráðstöfunartekjum heimilanna og leggja nýjar byrðar á atvinnustarfsemina. Það er ekki eitt og sér vandamálið. Hættan er sú að þetta muni lengja það tímabil sem það tekur okkur að koma hagkerfinu aftur í gang og fara að skapa að nýju störf.

Þá erum við komin að einu sem ég held að verði smám saman mergur málsins, mál málanna í allri efnahagsumræðu á næstu missirum og það eru atvinnumálin. Þetta frumvarp er augljóslega ekki til þess fallið að gera neitt í atvinnumálum. Það er verið að leggja nýjar byrðar á atvinnustarfsemina og tryggja þannig að við höfum úr þeim bótum að spila sem þarf til þess að mæta framfærslu atvinnulausra. En það vantar allar hugmyndir, meðal annars skattahugmyndir um það hvernig við getum skapað hvata inn í hagkerfið til þess að skapa ný störf og fá fyrirtækin til þess að ráða til sín fólk. Það þarf ekkert að finna upp hjólið í þeirri umræðu. Við getum bara horft til þeirra fordæma sem við getum séð hvarvetna í löndunum í kringum okkur sem hafa gripið til þess ráðs að koma með skattalega hvata til atvinnustarfseminnar til þess að ýta undir vilja hjá þeim til þess að ráða til sín fólk.

Í efnahagstillögum Sjálfstæðisflokksins vikum við að hugmyndinni um að auka við skattfrádrátt vegna rannsókna og þróunar, þ.e. að fyrirtæki sem leggja út í viðbótarkostnað eða út í fjárfestingu til rannsókna og þróunar fái til þess skattalega hvata og þar með eru komnir hvatar fyrir viðkomandi fyrirtæki til þess að ráða til sín fólk. Sums staðar hefur verið farin sú leið hreinlega að veita sérstakan skattafslátt fyrir hvert starf sem er skapað hjá viðkomandi fyrirtæki, jafnvel fyrir hvern starfsmann sem viðkomandi fyrirtæki ræður. Það geta verið tímabundnir hvatar. Þeir geta verið sex mánuðir, tólf mánuðir, átján mánuðir eða annað. En nei, við fáum engar slíkar hugmyndir frá þessari ríkisstjórn. Hún hefur skellt skollaeyrum við öllum hugmyndum í þá veruna. Það eina sem henni dettur í hug er að hækka skattprósentuna alls staðar og horfir algjörlega fram hjá þeirri staðreynd hversu mjög þetta getur dregið úr öllum drifkrafti í hagkerfinu og valdið viðbótarvanda, viðbótarvanda fyrir fyrirtæki sem nú þurfa að auka framlög sín til atvinnuleysistryggingagjaldsins. Við skulum bara athuga það að á næsta ári og því sem eftir lifir af þessu ári er með þessu frumvarpi verið að ákveða að auka um 18 milljarða byrðarnar á atvinnulífið bara út af atvinnuleysistryggingagjaldinu. Þetta veldur því beinlínis að fyrirtækin hafa úr minna fjármagni að spila til þess að ráða til sín fólk og getur jafnvel líka valdið því að fyrirtækin þurfa, eins og bent hefur verið á í nefndaráliti, ýmist að lækka laun eða hreinlega segja upp fólki sem síðan tekur þá við fjármununum sem er verið að gera þessum sömu fyrirtækjum að greiða núna.

Við höfum í allri okkar nálgun við þann vanda sem við er að glíma tekið undir með þeim sem segja að það þurfi óvenjulegar ráðstafanir og við þurfum að taka mjög á því til þess að hífa okkur upp úr þessu. Við viljum benda á að með því að endurvekja skattstofnana til dæmis með því að skapa ný störf getum við unnið okkur hraðar út úr þessu heldur en með því að reyna að skattleggja okkur út úr vandanum. Ég gerði það hér fyrr í umræðunni í dag að lýsa yfir ákveðinni furðu á viðmóti aðila vinnumarkaðarins, þ.e. hversu mjög langt þeir voru tilbúnir til að ganga í nýjum álögum, nýjum sköttum, til þess að skapa stöðugleikann og ég óttast að þetta geti orðið til þess að draga málin á langinn.

En hvað gera ný störf fyrir ríkissjóð? Tuttugu þúsund ný störf er það sem okkur vantar. Okkur vantar 20 þúsund ný störf. Þau munu bæta afkomu ríkissjóðs um 60 milljarða. Hvar eru þessar tillögur? Hvar eru hugmyndirnar um það hvar nýju störfin eiga að verða til? Hvar eru tilslakanir, hliðranir, hvatar, skattalegir eða af öðrum toga fyrir atvinnufyrirtækin til þess að slík störf geti orðið til? Þær hugmyndir er ekki að finna í þessu máli og við því hljótum við að bregðast með harðri gagnrýni.

Að öðru leyti vil ég bara taka undir þær áherslur sem koma fram í nefndaráliti hv. þingmanna Péturs H. Blöndals og Tryggva Þórs Herbertssonar sem lýsa málinu ágætlega. Meðal þeirra tillagna sem eru í þessu frumvarpi — ég ætla ekki að rekja þær hér lið fyrir lið — eru gamlir kunningjar eins og til dæmis aukin skattlagning á vaxtagreiðslur út úr landinu. Ég sat í efnahags- og skattanefnd þegar sama hugmynd var uppi á borðum núna á vorþinginu og þá tókst meiri hluti fyrir því í efnahags- og skattanefnd að fella þetta ákvæði brott. Það var eiginlega enginn annar en hæstv. fjármálaráðherra að mæla tillögunni bót og ég verð að lýsa yfir fullkomnu skilningsleysi á því hvernig þeir þingmenn sem styðja sömu stjórnarflokkana og þá stöðvuðu málið hafa núna á örskotsstundu skipt um skoðun og vilja fara þessa leið sem er hættuleg og mun á endanum ekki gera annað en að auka byrðarnar á atvinnustarfseminni, auka lántökukostnaðinn. Það er algjör draumsýn að einhverjir útlendingar greiði þennan kostnað. Menn eru bara ekki svo vitlausir að lána peninga til Íslands án þess að gera ráð fyrir öllum þeim sköttum og gjöldum sem greiða þarf vegna viðkomandi lántöku fyrir fram. Það verður allt saman reiknað inn í verðið. Þannig mun það gerast og þess vegna erum við á móti þeirri hugmynd.