137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég vil lýsa vonbrigðum mínum með þá afstöðu sem fram kemur hjá hv. formanni Sjálfstæðisflokksins til þess stöðugleikasáttmála sem gerður var í gær og þeirri gagnrýni í garð aðila vinnumarkaðarins sem fram kemur í máli hans og segi fyrir mitt leyti þvert á móti að aðilar vinnumarkaðarins hafa sýnt mikla ábyrgð með því að ná því samkomulagi.

Það er auðvitað ekki nýtt að yngri kynslóðirnar í Sjálfstæðisflokknum tali af ákefð gegn sköttum en ég held að það lýsi firnamiklu óraunsæi í því neyðarástandi í efnahagsmálum sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir að það þurfi ekki að einhverju leyti að skatta sig út úr þeim vanda. (Gripið fram í.) Ég lýsi vonbrigðum með það að hv. þingmanni skuli fallast hugur í því efni yfir ekki stærri hluta þess verkefnis en hér liggur fyrir í þessu máli, en hér liggja í aðalatriðum fyrir fjórar umtalsverðar tekjuöflunartillögur.

Sú fyrsta er um hækkun tryggingagjalds sem Samtök atvinnulífsins höfðu frumkvæði að og lýstu einfaldlega yfir að væri raunsætt, að atvinnulífið hefur alltaf borið og muni alltaf þurfa að bera kostnað af Atvinnuleysistryggingasjóði. Ég hlýt að spyrja hv. þingmann hvort hann deili ekki því raunsæi.

Í öðru lagi að lagður verði sérstakur tekjuskattur á fólk með yfir 700 þús. kr. sem hefur létt verulega á skattbyrði hjá á síðustu árum. Er ekki sjálfsagt og eðlilegt að afturkalla þær aðgerðir sem við höfðum ekki efni á þá?

Í þriðja lagi er lítils háttar hækkun á fjármagnstekjuskatti hjá þeim sem miklar fjármagnstekjur hafa.

Í fjórða lagi afturköllun á hluta þeirra ívilnandi aðgerða sem við gripum til fyrir tveimur árum síðan fyrir sykurframleiðslu í landinu og við höfum ekki reynst hafa efni á.

Er einhver af þessum fjórum aðgerðum með þeim hætti (Forseti hringir.) að hún grafi undan samfélagi okkar í einhverjum skilningi eða gerir hv. þingmaður alvarlegar athugasemdir við einhverja af þessum tillögum?