137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:39]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eftirtektarvert hjá þingmönnum stjórnarmeirihlutans að þeim er mjög í mun að draga upp þá mynd í umræðum á þinginu að við sjálfstæðismenn séum eitthvað ósáttir við aðila vinnumarkaðarins, að við séum á móti stöðugleikasáttmála. Þetta er bara alrangt. Ég skal segja það einu sinni enn, ég fagna því að gerður hafi verið stöðugleikasáttmáli. Og ég skal segja það einu sinni enn, mér finnst aðilar vinnumarkaðarins hafa sýnt með þessu gríðarlega mikla ábyrgð. En ég lýsi á sama tíma ákveðinni undrun á því að þeir skuli hafa verið tilbúnir til þess að ganga að þeim stöðugleikasáttmála sem nú liggur þrátt fyrir að ríkisstjórnin kæmi ekki með neitt, ríkisstjórnin lagði bara ekkert á borðið. Þeir féllu frá öllum kröfunum sem þeir hafa haft svo hátt um fram eftir árinu, til að mynda um að vextir væru komnir undir 10%, sem var algjör grunnforsenda fyrir nokkrum vikum síðan, til að mynda um að bankakerfið yrði endurreist sem allra fyrst. Nú er talað um að það gerist mögulega með haustinu. Að öðru leyti eru þetta ekkert nema einhverjar óljósar vísbendingar um að ríkisstjórnin hyggist gera hitt eða þetta í stöðugleikasáttmálanum. Látum það liggja milli hluta, við erum að ræða þetta frumvarp.

Það er ekki rétt sem hv. þingmaður segir að við séum í grundvallaratriðum á móti öllu því sem gert er í þessu máli, t.d. eins og hátekjuskatturinn. Við höfum nefnt í sambandi við það atriði að það sé óheppilegt að ekki sé tekið tillit til tekna hjóna, að þessi útfærsla sé mjög slæm. En í grunninn er ég að segja að með hærri sköttum verður vandinn ekki leystur, með hærri sköttum einum og sér. Ríkisstjórnin verður að fara að átta sig á að til eru aðrar leiðir, betri og skynsamlegri, til að auka tekjur ríkisins og stoppa upp í gatið, annars vegar með því að hvetja hagkerfið af stað, skapa ný störf, koma með hvata og hægt er að skattleggja með öðrum hætti eins og ég vék að í máli mínu. Þessi aðferðafræði getur (Forseti hringir.) beinlínis orðið til þess að draga enn frekar þróttinn úr atvinnustarfseminni eða erum við hv. þingmaður (Forseti hringir.) kannski ósammála um það að heimilin og atvinnustarfsemin í landinu megi ekki við frekari byrðum?