137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:46]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé í reynd þannig að sá stöðugleikasáttmáli sem nú liggur fyrir og þetta frumvarp sem við erum að ræða hér, eru auðvitað í sjálfu sér ekki annað en ákveðið landakort, ákveðinn vegvísir um það hvernig hlutirnir eigi að þróast, hvernig menn ætli að þræða sig eftir þeim vegum sem menn sjá á kortinu. Það á margt eftir að breytast og það eru fyrirvarar af hálfu bæði Samtaka atvinnulífsins og launþegahreyfinganna í samkomulaginu sem eru með dagsetningar strax á þessu ári þannig að þetta verður lifandi skjal. Við erum ekkert að negla niður neina hluti í dag sem verða klappaðir í stein og verða óbreyttir út samningstímabilið. Þvert á móti. Þetta er allt saman fullt af fyrirvörum.

Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að þetta er á endanum spurning um blöndu af aðgerðum og við sögðum það fyrir kosningar að líklega þyrfti að skera niður um það bil 10% í flestum ráðuneytum. Við sáum fyrir okkur um það bil 5% í velferðarráðuneytunum. Það var einn hlutur sem við sáum fyrir okkur að þyrfti að gera.

Veigamesti munurinn á þeim hugmyndum sem við höfum verið að tala fyrir og því sem ríkisstjórnin er að gera liggur í því hvernig nýrra tekna er aflað hjá ríkinu. Hér er lagt upp með hærri skatta, auknar byrðar. Við höfum sagt: Horfum á atvinnustarfsemina. Sköpum störf. Störf skapa tekjur fyrir ríkið. Ég sakna þess algjörlega bæði í stöðugleikasáttmálanum þar sem slíkar hugmyndir eru í raun ekki sjáanlegar nema bara með stækkunargleri og auðvitað í allri umræðu um ríkisfjármálin fram á veginn litið, að það sé verið að ræða um hvata, ný atvinnutækifæri, skattalega hvata fyrir fyrirtækin til þess að ráða til sín fólk, taka áhættu, og auðvitað er lykilatriði í því að bankakerfið fari að fúnkera eins og það á að gera.