137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:53]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að frítekjumarkið var ekki vísitölutengt framan af og verkaði þannig á móti hækkunum á ríkisframlögum til viðkomandi málaflokka. En ég held eftir á að hyggja að allur samanburður við hækkanir á almennum launamarkaði sé dálítið varhugaverður vegna þess að við sjáum það alveg í dag að við höfðum ekkert efni á þeim launahækkunum sem gengu hér yfir á umræddu árabili. Það er stóri lærdómurinn sem við þurfum að draga af þessu tímabili sem nú hefur tekið enda að sígandi lukka er best. Þetta tímabil einkenndist af síauknum kröfum allra. Ég ætla ekkert að fara að gera upp á milli allra þeirra hópa sem vildu bæta sín kjör. Eflaust höfðu þeir sem höfðu úr minnstu að spila mest til síns máls. En umræðan einkenndist af því að það höfðu allir fengið mikla kaupmáttaraukningu en ágreiningurinn snerist um það að hún hafi verið mismikil á milli hópa.

Varðandi það hvar eigi að skera frekar niður þá vék ég að því hér áðan að við höfum lagt fram hugmyndir um hversu há niðurskurðarprósenta þurfi að vera í einstökum ráðuneytum um það bil. Mismunurinn á tillögum okkar og þeim sem ríkisstjórnin er hér með byggist fyrst og fremst á því að við teljum að hægt sé með hvetjandi reglum, skattbreytingum og öðrum aðgerðum að koma hagkerfinu fyrr af stað, skapa atvinnulífinu svigrúm til þess að komast í gang, skapa ný störf. Það er atvinnusköpunin sem mun á endanum draga okkur út úr þessu. Við munum aldrei lifa á því að greiða opinberum starfsmönnum laun.