137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:56]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera lítið úr mikilvægi opinberra starfa og þeirri þjónustu sem opinberir starfsmenn veita hvarvetna í opinbera geiranum, hvort sem þeir eru kennarar í skólum eða hjúkrunarfólk og læknar í heilbrigðiskerfinu eða hvar annars staðar í velferðarkerfinu sem við dræpum niður fæti.

Vandinn er bara sá að laun þessa fólks koma úr ríkissjóði og ríkið tekur til baka hluta af sköttunum. Það sem við þurfum er verðmætasköpun í landinu sem á uppruna sinn annars staðar en hjá ríkissjóði. Það gerist hjá atvinnustarfseminni í landinu. Það gerist með hagvexti sem er drifinn áfram helst af gjaldeyrisskapandi tekjum. Við getum ekki rekið almennilegt velferðarnet hér án þess að um leið vera með öflugt atvinnulíf og búa atvinnulífinu hagstæða og samkeppnishæfa (Forseti hringir.) umgjörð. Þetta eru bara gömul og ný sannindi.