137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. menntamálaráðherra tók þá ákvörðun fyrir ekki mörgum mánuðum að halda áfram með þetta hús á sama tíma og rétt áður en hún tekur ákvörðun um að fara að skerða úti um allt kerfið, bæði laun ríkisstarfsmanna, hækka skatta og taka upp sparnaðaraðgerðir um allt. Þarna finnst mér ekki samræmi í ráðstöfunum hæstv. ríkisstjórnar.

Varðandi skattlagningu á fyrirtækin tel ég ýmsar aðrar leiðir til að bæta stöðu ríkissjóðs, t.d. með því að herða róðurinn í því að taka upp nýjar virkjanir, reisa ný álver eða finna aðrar leiðir til að nýta orku landsmanna sem liggja hjá hæstv. ríkisstjórn, hæstv. iðnaðarráðherra, og bíða ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að fara í gang. Ég nefni Helguvík, ég nefni Bakka og fjöldann allan af aðgerðum sem hægt væri að fara í til að auka atvinnu. Um leið og einn maður hættir að vera atvinnulaus hættir hann að taka atvinnuleysisbætur, minnkar sem sagt kostnað ríkisins, og þegar þessi maður fær atvinnu fer hann að borga skatta. Hann eykur tekjur ríkissjóðs án þess að skattar séu hækkaðir eitt eða neitt. Við það að einn maður breytist úr því að vera atvinnulaus í það að vera vinnandi maður á vinnumarkaði batnar staða ríkissjóðs um milljónir á ári.

Ég skil ekki af hverju menn fara ekki þá leið að reyna af alefli að koma í gang aðgerðum sem auka atvinnu og bæta stöðu ríkissjóðs.