137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:29]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kann afar illa við það þegar hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson ávarpar mann þannig að það sé bara skvettugangur eða að það bylji í einhverri tómri tunnu. Það verður að vera einhver innstæða fyrir slíku. Að taka atvinnulífið allt, þá sem sátu inni í Karphúsi, og ávarpa héðan úr þingsal Alþingis eins og þeir hafi ekki hundsvit á þessu og aðeins einn af 63 þingmönnum — (TÞH: Var ég að gera það?) Þannig skil ég orðræðuna og er búinn að sitja undir henni áður. (TÞH: Ég var að tala um það sem þú varst að segja.)

Hv. þingmaður orðar það þannig að það séu vitlausar aðgerðir sem verið er að fara í. Þær voru afgreiddar í gær af launþegahreyfingunni, af Samtökum atvinnulífsins með 150.000 manns á bak við sig. Þar í eru málamiðlanir, ég geri mér fulla grein fyrir því. Það breytir hins vegar ekki því að þar var samkomulag.

Ekki ætla ég Vilhjálmi Egilssyni eða öðrum þeim sem þar skrifuðu undir að þeir leiki sér að því að setja ríkið á hausinn eða taka ákvarðanir sem eru algjörlega út úr kortinu þegar þeir skrifa undir slíkan sáttmála, jafnvel þó að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson telji svo vera. Þannig talar hann til þessa samkomulags.

Það er alveg rétt að við getum hugsað okkur aðrar leiðir og það væri afar notalegt að geta tekið 1/3 í skattlagningu, fyrirframgreiðslu á lífeyrissjóðina, ávísa þannig á framtíðina. Gott og vel, það er vissulega einn möguleiki að taka lánið hjá lífeyrissjóðunum. Við gætum líka tekið bókstaflega vaxtalaust lán hjá lífeyrissjóðunum með lögþvinguðum aðgerðum. Menn geta haft svona hugmyndir. Mér finnst þetta of billega sloppið. Mér finnst að menn verði bara að gjöra svo vel að taka á málunum sjálfir og vera ekki að reyna að ávísa á framtíðina varðandi þessi atriði.

Viðfangsefnið er mjög stórt og það er rétt að ekki hefur mörgum opinberum starfsmönnum verið sagt upp. Laun hafa þó verið lækkuð verulega og munu lækka mun meira. Sumir hafa orðið að minnka við sig stöðuhlutfall og það var einmitt hluti af því sem við tókum ákvörðun um, Sjálfstæðisflokkur (Forseti hringir.) og Samfylking, að reyna að fara í gegnum þetta ár án þess að byrja á að skera þar niður til að auka á vandann með því. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn átti sig á því (Forseti hringir.) að það hafi verið hálfvitlausir sjálfstæðismenn sem tóku þessa ákvörðun við gerð fjárlaga fyrir þetta ár.