137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:33]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gott að heyra að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson vill ekki styggja þá sem komu að stöðugleikasáttmálanum en ég get upplýst hv. þingmann um að þeir höfðu bæði bandorminn og skýrsluna, sem lögð var fram í dag, til grundvallar þegar þeir unnu stöðugleikasáttmálann. Þessi ríkisstjórn leitaði samstarfs við aðila vinnumarkaðarins og líka samstarfs við sveitarfélögin þó að það þurfi að vinna miklu betur að því samstarfi. Þetta voru forsendurnar sem lagðar voru til grundvallar þegar stöðugleikasáttmálinn var lagður fram.

Ég ætla ekki þar með að gera Samtök atvinnulífsins ábyrg fyrir einstökum ákvörðunum, hvorki þessum bandormi né öðrum þáttum. Þetta er heildarniðurstaðan sem menn skrifa undir með ákveðinni markmiðssetningu, með ákveðinni tillögugerð, það er auðvitað þannig hvort sem það eru Kennarasamtökin, Samtök atvinnulífsins eða einstakir. (Gripið fram í: … bandorminn.) Ég er að tala um þær forsendur sem eru fyrir ríkisfjármálunum sem verið er að vinna að til að reyna að koma á jafnvægi í þessu samfélagi eftir það hrun sem átti sér stað — ég ætla ekki að endurtaka hvers vegna, það veit hv. þingmaður jafn vel og ég. Það er það sem verið er að glíma við og bandormurinn er eitt fyrsta skrefið. Síðan kemur áætlunin sem er í heild, stöðugleikasáttmálinn er hluti af því og síðan þurfum við að taka hverja ákvörðunina á fætur annarri varðandi framhaldið. Ábyrgðin verður að sjálfsögðu Alþingis og hún verður ríkisstjórnarinnar, það segir sig sjálft. Ég þarf engan fyrirlestur um það hver stofnaði lífeyrissjóðakerfið. Ég ver það samt hvort sem sjálfstæðismenn hafa átt þar frumkvæði eður ei. Ég var sjálfur talsmaður þess að hér yrðu gegnumstreymislífeyrissjóðir. Ég tel að sjóðirnir hafi gegnt mjög mikilvægu hlutverki eins og þeir eru núna og að þeir muni gera það áfram. Ég held að þeir séu ein af okkar mikilvægustu eignum inn í framtíðina til að tryggja að ríkið geti staðið mjög vel að þegar þunginn eykst og eldri borgarar verða fleiri en í dag í hlutfalli við þá sem eru á vinnumarkaði. Spurningin er hvort við ætlum að taka út úr þeim sjóði, ég veit ekki hvort á að gera það. Ég skal ræða það en aðilar vinnumarkaðarins (Forseti hringir.) hafa lagt það til.