137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[18:45]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talar um þröskulda en ég fæ ekki betur séð en að núverandi kvótakerfi og núverandi sjávarútvegskerfi sé yfirfullt af þröskuldum. Ég ítreka bara það sem ég sagði áðan, ríkisstjórnin er að hefja vinnu við að endurskoða þetta kerfi. Strandveiðifrumvarpið var fyrsti liðurinn í þeirri vinnu og þetta er einmitt gert í þeim tilgangi að gefa byggðunum von. Hann vitnar til sjávarbyggða víðs vegar um landið sem margar hverjar hafa mátt þola gríðarlega erfiðleika, einmitt út af því hvernig hefur verið gengið fram í þessu kerfi.

Varðandi stöðugleikasáttmálann hefur þessi ríkisstjórn vissulega bein í nefinu en ég ítreka það sem ég sagði áðan, það er mikilvægt að um allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar sé full sátt meðal þeirra aðila sem mynda þennan stöðugleikahóp. Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji ekki mikilvægt að haldin sé góð sátt við aðila vinnumarkaðarins og þá sem skrifa undir þennan stöðugleikasáttmála. Ef svo er ekki væri gott að fá svar við því hér því að þá er hann líklega einn fárra í samfélaginu á þeirri skoðun.