137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[18:46]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stöðugleikasáttmálinn er mikilvægur áfangi og verður vonandi grunnurinn að einhverju öðru. Ég geri ekki lítið úr því frekar en aðrir hv. þingmenn sem hafa talað um hann hér í dag. En mér finnst fráleitt að þessar viðræður hafi snúist um að halda mönnum góðum, að ekki hafi mátt taka til umræðu áhugaverðar hugmyndir sem eru studdar (Gripið fram í.) af mjög mörgum aðilum í þessu samfélagi sem eru ekkert endilega kenndir við Sjálfstæðisflokkinn. (ÁsmD: Það var gert.) Sjávarútvegskerfið er fullt af þröskuldum. Við höfum ekki hafnað því að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið og samkvæmt sáttmála síðustu ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn tók þátt í stóð til að endurskoða það. En að gera það með svo byltingarkenndum hugmyndum sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur gert núna, sem er í raun að setja allt fiskveiðisamfélagið úti um allt land í uppnám og situr fyrir vikið undir mikilli gagnrýni sjávarbyggða, smábátasjómanna, útvegsmanna og samtaka sjómanna, getur ekki verið rétt leið. Það er ekki sáttatónninn í þessari ríkisstjórn gagnvart þeim aðilum, það er alveg ljóst þó að maður geri sér vonir um að Samtök atvinnulífsins hafi með fyrirvara sínum á þessum vettvangi, stöðugleikasáttmálanum, varðað leiðina við því að þessi ófæra leið verði ekki farin lengra og valdi ekki meiri skaða en hún hefur þegar valdið.

Það er nefnilega þannig að á grunni þessara öflugu atvinnugreina mun þetta land ná viðreisn sinni aftur. Það er á grunni öflugs atvinnureksturs sem byggist á nýtingu náttúruauðlinda sem við munum ná vopnum okkar aftur. Þessi ríkisstjórn er ekki að stuðla að því, hún virðist vera að vinna gegn því.