137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[18:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns fagna stöðugleikasáttmálanum sem var undirritaður í gær. Ég tel hann vera ljós og birtu inn í það ástand sem nú ríkir í samfélaginu og að honum standa, eins og hefur komið fram, hagsmunasamtök um 150.000 aðila sem ég tel gríðarlega mikilvægt. Það segir okkur þá það að margir og flestallir muni gera sér grein fyrir því sem verið er að fara í. Ég fagna honum því sérstaklega.

Það sem við tökumst á um hér er hvort við séum með raunhæfa áætlun um niðurskurð og skattahækkanir. Við erum að tala um grundvallaratriði sem felast í því hvort menn geta skattlagt meira en nú er. Ég held að allir muni hafa verulegar áhyggjur af því. Eins og atvinnulífið er statt í dag er maður mjög uggandi yfir því að auknar skatttekjur muni ekki skila okkur þeim tekjum sem við vonumst til að þær geri.

Atvinnulífið er í dag nánast allt á brauðfótum og ég er ansi hræddur um að markmið okkar í sambandi við fjárlögin muni því miður ekki standast. Ég óska þess þó innilega að ég sé að gera of mikið úr vandanum og hafi rangt fyrir mér í því.

Það sem verið er að gera er að við erum að taka 1,8 milljarða á þessu ári í sparnaðarrekstri hjá ríkinu. Eins og margoft hefur komið fram hafa ríkisútgjöld aukist á undanförnum árum um 40% á hverju ári. Það er búin að vera gríðarleg þensla í ríkiskerfinu og við erum að setja þar inn fjármagn sem við höfum í raun og veru ekki efni á á sama tíma og við erum að spara í rekstri um 1,8 milljarða. Ég geri ekki lítið úr því að það er ákveðið átak í því en þá erum við reyndar að skera niður hjá elli- og örorkulífeyrisþegum um sömu upphæð, 1,8 milljarða.

Ég hefði viljað að við hlífðum bæði elli- og örorkulífeyrisþegum og snerum okkur að því sem skiptir máli. Það sem skiptir máli í dag er að fara að framleiða. Við þurfum að framleiða og búa til meiri gjaldeyri. Bara það eitt og sér, svo maður taki það hér upp, að ef hæstv. sjávarútvegsráðherra fer eftir niðurskurðartillögunum sem liggja fyrir frá Hafrannsóknastofnun erum við að tala um 30 milljarða samdrátt á næsta ári. Ég er ansi hræddur um að við séum ekki öll farin að gera okkur grein fyrir því hvað það muni þýða. Ég verð að lýsa mjög mikilli óánægju minni með þau vinnubrögð hæstv. sjávarútvegsráðherra að hann gaf það upp til Alþjóðahafrannsóknaráðsins 22. maí. Það er rúmur mánuður síðan hann gaf út hvað hann ætlar að veiða af þorski í aflamarkinu á næsta ári. Hann er búinn að taka þá ákvörðun. Ég hef ekki heyrt hann segja hana opinberlega hér á landi. Hann er búinn að taka ákvörðun um að skerða þorskkvótann um 10.000 tonn, úr 160.000 tonnum niður í 150.000 tonn. Hvað mun það þýða? Ef við ætlum ekki að nýta auðlindirnar okkar og skaffa tekjur munum við ekkert komast í gegnum þetta, því miður. Það er enginn sjómaður við þessar strendur eða útgerðarmaður sammála því að það þurfi að skera niður þorskkvótann, ekki nokkur einasti. Hins vegar eru allir sammála um að skera þurfi niður ýsukvótann. En með þessu háttalagi er ég ansi ræddur um að hæstv. ríkisstjórn geri sér ekki grein fyrir því sem í vændum er. Ég segi það alveg eins og mér finnst það.

Það sem þarf að gera er náttúrlega að skapa störf og afla gjaldeyristekna. Það er gríðarlega mikilvægt. Annað sem þarf að gera, það kemur reyndar líka fram í stöðugleikasáttmálanum sem ég vísaði til áðan, frú forseti, er að fara í þær framkvæmdir sem liggja fyrir, þ.e. klára uppbygginguna á álverinu í Helguvík, stækka álverið í Straumsvík og klára líka þær framkvæmdir sem eru tengdar þeim áformum. Inni í þjóðhagsspánni eru þær framkvæmdir sem eiga að draga áfram hagvöxtinn. Ef þessi ríkisstjórn vill taka pólitíska ákvörðun um að hún vilji ekki gera það verður að taka það út úr þjóðhagsspánni þannig að við séum ekki með falskar forsendur og blankó blöð. Við erum búin að fá nóg af því að vera með áætlanir og annað sem skila litlu eða engu.

Þá ætla ég að koma aðeins að öðru sem ég hef miklar áhyggjur af, að við náum ekki að standast fjárlögin. Það verð ég að segja, frú forseti, að það kemur mér afskaplega á óvart — og hefði ekki trúað því þótt einhver hefði sagt mér það — hversu ofboðslega veikt þingið er gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er alveg með ólíkindum hvernig það er. Eins og ég sagði í upphafi hef ég mjög miklar áhyggjur af því að við náum ekki að halda fjárlög. Við vorum að funda í fjárlaganefnd með fólki frá ráðuneytunum og þar kom fram að þeir sem þar sitja og stýra gerðu í fyrsta lagi jafnvel ráð fyrir því að fá að færa heimildir á milli ára og í öðru lagi að skila inn fjáraukalögum. Og þá er allt unnið fyrir gýg. Það sem ég hræðist mjög mikið er að á hausti komanda munum við áfram vera með mjög stórt gat. Ég hræðist það mjög, enda kemur reyndar ástæðan fram í ábendingum í meirihlutaáliti fjárlaganefndar. Vil ég fá að lesa aðeins úr því, með leyfi forseta:

„Miðað við þær upplýsingar sem fjárlaganefnd Alþingis hefur aflað sér munu þær ráðstafanir sem tilgreindar eru í frumvarpinu ekki duga til að unnt sé að halda markmiðum fjárlaga nema fylgt verði ströngu aðhaldi og ráðuneyti og stofnanir ríkisins fylgi þeim fyrirmælum sem sett hafa verið um frekari sparnað sem einstök ráðuneyti kynntu á fundi nefndarinnar.“

Síðan kemur, og það er það sem við erum búin að upplifa í mörg ár:

„Ljóst er að agaleysi hefur verið og er í fjármálum ríkisins og eftirfylgni með fjárlögum óviðunandi. Hvetur meiri hlutinn því eindregið til breyttra vinnubragða við fjárlaga- og áætlunargerð ríkisins þar sem horft er til lengri tíma í senn og að markmið og stefnumótun liggi fyrir.“

Það sem okkur vantar, frú forseti, er eitthvert eftirlit og að koma fjárlögunum þannig fyrir að hægt sé að fylgjast með rekstri ríkisins. Það segir kannski allt um stöðuna sem við erum í að í síðustu viku samþykkti Alþingi Íslendinga lokafjárlög árið 2007, tveimur árum seinna. Lokafjárlög ársins 2007 voru samþykkt á Alþingi í síðustu viku. Hvernig hefur rekstur ríkisins verið? Hann hefur verið með þeim hætti að menn hafa farið fram úr og síðan hafa alltaf verið búin til fjáraukalög. Þetta er hlutur sem við verðum að koma böndum á og það verður að styrkja eftirlitsþátt fjárlaganefndar.

Það er þannig í dag að fjárlaganefnd hefur ekki aðgang að bókhaldskerfi ráðuneytanna. Hún hefur ekki aðgang að því. Starfsmenn fjárlaganefndar og fjárlaganefndin sem slík sem á að fylgjast með ríkisútgjöldunum hefur ekki aðgang að því. Þessu tel ég nauðsynlegt að breyta. Það er nauðsynlegt að breyta þessu til að fjárlaganefnd geti sinnt hlutverki sínu eins og hún þarf að gera.

Núna erum við að fara í mjög sársaukafullar aðgerðir í ríkisfjármálum. Þá er enn brýnna að við höfum tæki í höndunum til að geta fylgt þeim eftir. Það sem hefur gerst á undanförnum árum þegar menn voru í uppsveiflunni er að tekjustofnar ríkisins voru vanmetnir, þ.e. tekjur ríkisins hafa yfirleitt verið hærri en menn reiknuðu með í fjárlögum sem styður þá það að ef menn hafa reiknað með 500 milljörðum eða 400 milljörðum fá þeir kannski 10% hærra. Síðan keyra menn fram úr um 5% í útgjöldunum og þá gerist það að menn rétta það í fjáraukalögum. Í dag er staðan allt önnur, frú forseti. Hún er þannig að við erum hugsanlega að ofmeta skattstofnana og þess vegna verðum við að hafa í fjárlaganefnd nauðsynlegt tæki til að við getum sinnt eftirlitshlutverkinu þannig að fjárlögin haldi. Það er gríðarlega mikilvægt að það verði gert.

Síðan verð ég að segja að ég er hugsi yfir því hvernig þetta er. Ég fór að kynna mér hvernig hið margfræga tónlistarhús, tónlistar- og ráðstefnuhúsið, kemur í raun og veru inn í ríkisapparatið. Ég verð að segja það fyrir mína parta, ég er búinn að eyða bara örfáum tímum í það, að ég held að það væri verkefni fyrir einhvern rannsóknarblaðamann að fara í gegnum það ferli til að við mundum bara læra af því. Það fer inn í fjárlögin sem einhver heimildargrein í einni línu, það er verið að skuldsetja ríkissjóð um — hvað? (Gripið fram í.) Ég veit bara ekki hvað það er. Ömurlegast í þessu er að þjóð eins og við sem höfum ekki efni á þessari vitleysu, ég leyfi mér að segja það, frú forseti, skuli taka ákvörðun um að halda þessari byggingu áfram á sama tíma og við erum að skerða ellilífeyrisþega og öryrkja. Ég velti bara fyrir mér: Erum við nokkuð komin niður á jörðina? Ég velti því upp vegna þess að þetta hús er þvílíkt bruðl og var alveg nóg í öllu ruglinu. Ég held að það væri, eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur bent á, ágætisminnisvarði um ruglið sem var í gangi. Hvernig ætlar sú þjóð sem getur gert þessa hluti, að reisa þetta tónlistar- og ráðstefnuhús sem nánast enginn virðist vita hvað kostar, að reka það? Hvernig ætla menn að reka þetta? Sennilega verður rekstrarkostnaðurinn á því jafnmikill og við erum að skerða núna ellilífeyrisþega og örorkuþega. Hver er forgangsröðunin hérna? Ég velti því fyrir mér og líka í ljósi þess hvernig þetta verður til í ríkiskerfinu. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir þá sem hafa um forgangsröðun í þjóðfélaginu að segja hvort rétt sé að gera það með þessum hætti. Það er algjörlega galið að gera þetta á sama tíma.

Svo er líka annað sem við verðum að gera. Við verðum að fara í ákveðnar skoðanir á því sem er búið að viðgangast undanfarin ár og kemur upp dag eftir dag. Það er fullt af fólki á atvinnuleysisbótum í fullri vinnu. Það er þannig. Það sem við þurfum að gera ef við ætlum að koma þessu samfélagi aftur á réttan kúrs er að setja skýrari, rýmri og strangari kröfur eða lagaheimildir fyrir þær eftirlitsstofnanir sem eiga að fylgjast með þessu þannig að þær geti gripið inn í og leiðrétt þetta. Núna höfum við ekki efni á að láta fólk vera í vinnu á atvinnuleysisbótum.

Það er líka annað sem við verðum að passa okkur á. Við lesum um það í blöðum og heyrum í fréttum að það er verið að auglýsa fullt af störfum og það er ekki sótt um þau. Ef einhver sækir um þau eru það hugsanlega útlendingar. Erum við að búa til 5–7% atvinnuleysi til framtíðar? Þá verðum við bara að fara niður á það plan og búa til minna velferðarkerfi þar sem það er annars staðar. Það er líka þannig, frú forseti, að öll finnum við til með þeim sem minna mega sín, alveg sama hvar við stöndum í flokki. Það líður engum vel, alveg sama hver það er, með að fara að skerða örorkubætur eða ellilífeyri, engum, ekki nokkrum manni. Fullt af fólki er öryrkjar sem eru engir öryrkjar. Það er fullt af fólki sem maður skilur ekki sjálfur af hverju er öryrkjar. En það er líka fullt af fólki sem sannarlega er það. Það er oftast nær þannig að þeir sem svindla sér inn í kerfið fara í öll skúmaskotin og fá yfirleitt miklu hærri bætur en þeir sem eru sannarlega öryrkjar og þurfa á þeim að halda. Það er nefnilega það dapurlega við þetta líka. Við þurfum að taka á svona hlutum, bæði gagnvart atvinnuleysinu og þeim öryrkjum sem þiggja bætur en eiga ekki að hafa þær. Það er það sem við þurfum að gera. Við þurfum að snúa okkur að því að breyta þessu til baka því að við erum búin að lifa í loftbóluhagkerfi og vera mjög ójarðtengd. Ég velti því fyrir mér, eins og ég sagði áðan, að meðan við forgangsröðum eins og við gerum verðum við að fara að taka á þessum þáttum. Það er alveg kristaltært í mínum huga.

Að lokum vil ég segja, frú forseti, og ítreka að þegar við vorum að vinna þetta nefndarálit sem okkur var sent til umsagnar hjá fjárlaganefnd frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd var mjög mikill samhugur hjá nefndarmönnum. Ég bind miklar vonir við þá samstöðu sem myndaðist í fjárlaganefnd og þann skilning sem gætir þar hjá öllum, sama hvar þeir eru í pólitík, á að efla þurfi eftirlitsþáttinn og gera fjárlaganefnd mun virkari í sínum störfum til að geta fylgst með rekstrinum. Ég treysti því, frú forseti, að við munum fara í gegnum þetta tónlistarhússmál og læra af því sem þar er. Það er ekki enn þá of seint að grípa þar inn í. Það hefur komið fram að við erum núna að flytja inn fyrir eina 3,5 milljarða þetta glervirki sem við eigum engan gjaldeyri fyrir en við erum samt að gera það, og ekki bara það, við flytjum inn erlent sérhæft vinnuafl til að setja það upp. Það veit enginn hvernig á að reka það. Þess vegna hvet ég fólk til að hugsa um hvort við getum snúið við og þá gætum við hugsanlega viðurkennt það rugl sem við erum í og líka þá dregið til baka a.m.k. hluta, ef ekki allar þær skerðingar þeirra sem minnst eiga í þjóðfélaginu.