137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[19:05]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr):

Virðulegi forseti. Hvar er ríkisstjórnin? Væri ekki eðlilegt að hún væri hér að verja þann skelfilega gjörning sem bandormurinn er? Hvar er vonin sem þjóðin þarf svo sárlega á að halda? Hana er ekki að finna í áherslum ríkisstjórnarinnar því að nú hefur hin svokallaða skjaldborg umbreyst í gjaldborg.

Ég hef gefið mér tíma til að tala við þá hugrökku öryrkja sem hafa staðið vaktina fyrir utan þinghúsið. Mér finnst ljótt að bæta á áhyggjur fólks sem nú þegar berst í bökkum ofan á það að búa við heilsubrest. Mér finnst það algerlega óafsakanlegt. En á áhyggjur þeirra sem hér mótmæla hefur allverulega verið bætt. Hví er hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir ekki hér til að verja lagasetningu sem hrifsar burt sem hún barðist fyrir með kjafti og klóm til handa öryrkjum og ellilífeyrisþegum? Getur það verið rétt að hæstv. forsætisráðherra stjórni ekki landinu heldur séu öll okkar ríkisfjármál og jafnvel pólitískar áherslur runnin undan rifjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?

Sagt var hér fyrr í dag að það væri þekkt aðgerð hjá AGS að láta hýsilinn sinn skera niður hjá þeim hópum sem síst mega við því. Það er víst gert til að öðlast trúverðugleika í alþjóðasamfélaginu um að þetta sé allt saman gert af mikilli alvöru og engu verði eirt til að tryggja stöðugleika. Er þetta eitthvað sem við viljum taka þátt í, eitthvað sem við mögulega getum varið? Ríkisstjórnin virðist hafa villst eitthvað frá vinstri vængnum og ástundar nú meiri nýfrjálshyggju með niðurskurði sínum en ákveðinn flokkur sem kenndur er við nýfrjálshyggju.

Nú hef ég hlustað á áherslur og lausnir hjá öllum flokkunum sem sitja á þingi og ég held að ef ríkisstjórninni væri einhver alvara með samvinnu og samráði ætti hún hreinlega að setja þennan bandorm í endurvinnslu og þiggja aðstoð frá minni hlutanum. Ég held að það væri skynsamlegt að nýta sér þá margslungnu styrkleika sem hér eru til innan húss, þá ólíku sýn sem fyrirfinnst hér. Ef hæstv. ríkisstjórn væri alvara með því að vinna sameiginlega að lausnum ætti hún að boða til alvörusamráðs. Ég held að þá gætum við náð utan um þetta risavandamál saman og fengið stærri sýn á orsök og afleiðingu þeirra gjörninga sem boðaðir eru hér í dag. Þá getum við komist hjá því að gera alvarleg mistök því að það er ljóst að margt af því sem hér er kynnt er ekki alveg hugsað til enda.

Tökum sem dæmi niðurskurð sem tengist öldruðum og öryrkjum. Þetta eru 1.800 milljónir, þetta er bara dropi í hafið af þeim niðurskurði sem á að framkvæma. Ég sat í fjárlaganefnd í fjarveru Þórs Saaris og hlustaði þar á velferðarráðuneytin okkar tala um að þau væru komin að þolmörkum og niðurskurður næsta ár mundi þýða uppsagnir og lokanir á stofnunum. Það hlýtur að vera til önnur lausn en sú sem boðuð er með þessum aðgerðum. Ég viðurkenni það fúslega að ég hef ekki heildarlausn en það er aldrei bara ein leið. Það væri e.t.v. ekki vitlaust fyrir ríkisstjórnina að byrja á réttum enda eins og t.d. að skera niður ofurlaun skilanefndarmanna sem hlaupa víst á milljónum í mánaðarlaun. Það kostar okkur um 500 millj. að taka þátt í bókaráðstefnu og 140 millj. að taka þátt í heimssýningu í Kína. Þetta eru bara einhver atriði sem detta inn í huga minn núna. Ég er alveg viss um að það mætti seilast í aðra vasa en hálftóma vasa heldri borgara og hæstvirtra öryrkja. Ég hefði átt von á heildrænni aðgerðum en að setja frekari skatta á heimilin í landinu án þess að aftengja vísitöluna því að jafnvel sykurskatturinn mun hækka húsnæðislánin hjá fólki sem nú þegar berst í bökkum.

Ég skilaði ein séráliti í fjárlaganefnd. Þar sagði ég m.a.:

„Því er alveg ljóst að það mundi brjóta gegn stefnu okkar að samþykkja þessa aðferð til að standast fjárlög. Minni hlutinn er alfarið á móti þeim niðurskurði sem boðaður er í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Minni hlutinn telur að með því að fylgja ráðgjöf og rammaáætlun AGS séum við að hefja vegferð sem mun enda á því að veikja svo mjög undirstöður velferðarkerfis okkar að það mun á endanum verða þjóðinni dýrkeyptara en svo að hægt sé að réttlæta það. Minni hlutinn skorar á hæstvirta ríkisstjórn að leita annarra leiða til að laga halla ríkissjóðs og styður almennt aðhald í ríkisfjármálum án þess þó að núverandi ríkisstjórn svíki kosningaloforð sitt um að standa vörð um velferðina. Ljóst er að bandormur þessi mun ekki standast ef marka má skýrslur úr ráðuneytinu. Því væri heillaráð að vinna betur að gerð hans og jafnvel horfast í augu við að halla ríkissjóðs verði ekki mætt með þeim aðferðum sem boðaðar eru í honum.“

Frú forseti. Ég hef fullan skilning á því að þessi ríkisstjórn standi frammi fyrir því sem næst ókljúfanlegum vanda en afsakið, æruverðugi forseti, er þetta ekki ríkisstjórnin sem boðaði fyrir kosningar að staðinn yrði vörður um velferðarkerfið?