137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[19:11]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Bhr):

Frú forseti. Hér er til umfjöllunar bandormur af verstu gerð. Eins og önnur innvortis sníkjudýr er markmið hans að naga og skemma og í þessu tilfelli innviði velferðarkerfisins. Ég tek undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal sem sagði áðan að það virtist sem ríkisstjórnina skorti heildarsýn.

Við lifum á sérstökum tímum og meiri hlutinn á Alþingi er ekki öfundsverður af hlutskipti sínu, en hann gleymir því alveg að hann þarf ekki að standa einn. Hér væri eina vitið og eina raunhæfa leiðin til að koma okkur út úr efnahagsvandanum að mynda þjóðstjórn og fá reynda sérfræðinga til liðs við okkur til að finna alvörulausnir. Bandormur sá sem nú skríður um þingið ber þess greinileg merki að honum hefur verið tjaslað saman í flýti. Á honum eru ótal gallar sem ýmsir sem hafa komið hér í ræðustól hafa bent á. Einn þessara galla er tryggingagjaldið.

Um daginn ræddi ég við mann sem rekur lítið fyrirtæki sem hingað til hefur staðið traustum fótum. Síðasta árið hefur róðurinn þyngst svo um munar og nú hefur þessi ágæti maður verið að íhuga að segja upp fólki. Hann sagði mér að ef tryggingagjaldið yrði hækkað eins og frumvarpið gerir ráð fyrir væri þessi ákvörðun hreinlega tekin fyrir hann. Hann mundi neyðast til að segja þessum starfsmönnum upp. Það er ekki til hagsbóta fyrir ríkið og það er ekki til hagsbóta fyrir þjóðina.

Hér fyrr í dag talaði hæstv. heilbrigðisráðherra um bisness og mátti ráða af máli hans að við ættum helst öll að vera opinberir starfsmenn. Þorri þjóðarinnar vinnur sem betur fer enn þá við einhvern bisness. Mér finnst ríkisstjórnin byrja á öfugum enda. Það er glórulaust að ætla að blóðmjólka aldraða og öryrkja. Það er glórulaust að setja það ekki í forgang að skapa fyrirtækjunum í landinu skilyrði til að starfa eðlilega. Hæstv. ríkisstjórn er að búa til bótaþega og sker svo niður bæturnar. Mig langar að biðja hv. meiri hluta um að hleypa fulltrúum minni hlutans að borðinu. Allir flokkarnir þrír sem mynda minni hluta hafa lagt fram hugmyndir, skoðanir og tillögur sem ekki eru skoðaðar eingöngu vegna þess að þær koma frá minni hlutanum.

Það er ljóst að grípa þarf til róttækra aðgerða í ríkisfjármálum. Ég get ekki stutt þennan bandorm því að hugmyndafræðin á bak við hann er vanhugsuð, ósanngjörn og hún mun ekki skila tilætluðum árangri því hann minnkar kökuna sem á að standa undir tekjuöflun og sparnaði ríkissjóðs. Bandormurinn ber þess öll merki að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi haldið í alla þræði og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ber enga virðingu fyrir velferðarkerfi eins og er á Norðurlöndunum. Þetta get ég ekki skrifað undir.