137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[19:22]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Komið er að lokum þessarar umræðu um frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum og nefndarálit þau sem hafa verið lögð fram og unnin í þinginu, bæði meiri hluta og minni hluta. Það er alveg ljóst af umræðum hver staða þjóðarbúsins er og ríkissjóðs. Við erum þjóð sem stöndum núna í miðri kreppu. Kreppan er tvöföld að mínu mati. Hún er annars vegar heimatilbúin og sú kreppa er að mínu mati miklu stærri og alvarlegri en sú sem fer um fjármálaheiminn á alþjóðavísu, þ.e. þessi alþjóðafjármálakreppa, þó að sú kreppa hafi ýtt við okkar eigin kreppu, þ.e. hruni allra bankanna sem voru starfandi hér á landi, okkar stóru banka. En það er alveg ljóst að þeir hefðu farið í þrot innan tíðar þó svo að heimskreppan hafi ýtt við og komið hruninu af stað fyrr en ella hefði verið. Heimskreppan olli hér lánsþurrð. Það var ekki lengur hægt að halda spilinu gangandi og halda áfram að fá lán og spila út eins og gert hafði verið. Ég tel því að hin heimatilbúna kreppa sé miklu alvarlegri vegna þess að þar verðum við og neyðumst til að líta í eigin barm. Við getum ekki kennt neinum öðrum um en sjálfum okkur og þeirri pólitík og stefnu sem hér hefur verið rekin undanfarin ár þar sem bankarnir og fjármagnið áttu að „regúlera“ sig sjálft eins og sagt var. Eftirlitið átti að vera svo gott að hægt var að treysta þessari starfsemi. En þetta brást allt saman.

Eftir stöndum við með mikinn vanda sem er ekki bara fyrir okkur sem erum hér að vinna fram úr þessu fjárlagaári og var þó nóg niður skorið um síðustu áramót þegar opinberum stofnunum var í raun gert mjög erfitt fyrir með litlum fyrirvara að fara í mikinn niðurskurð og endurskoðun á sinni starfsemi. Núna bætist við að fara í 20 milljarða kr. frekari niðurskurð það sem eftir er ársins. Þetta er ekki létt verk. Í pólitíkinni greinir okkur á um hvernig eigi að fara, hvort það eigi að fara í frekari niðurskurð því að það sem heitir aðhald í rekstri er orðið lítið brot af þessu. Aðhald í rekstri er orðið fyrir okkur á hinu háa Alþingi og í ríkisstjórn eftirlit með ríkisstofnunum þannig að þær haldi sig innan fjárlagarammans. Niðurskurður er aðgerð til þess að aðgerðaáætlun AGS gangi eftir og þar greinir okkur á í pólitíkinni, þ.e. um það hversu hátt hlutfall niðurskurðar eigi að vera og hversu mikið eigi að taka inn í sköttum. Þar held ég að það skipti líka máli hver haldi um stjórnvölinn, sem sé hvaða stefnu sú ríkisstjórn fylgi sem tekur að sér þetta verk, að hreinsa upp, að ganga í verkin, en sitja uppi með ákvarðanir og í raun afleiðingar aðgerða sem búið er að taka, hvernig eigi að fara í skattlagninguna og hvar eigi að skera niður. Þessi ríkisstjórn og Vinstri hreyfingin – grænt framboð sögðu sannarlega fyrir kosningar að það væri okkar hlutverk að verja velferðarþjónustuna og það ætlum við að gera. Við ætlum líka að reyna að standa vörð um kjör lífeyrisþega eins og unnt er. Því er mjög sárt — ég segi það fyrir sjálfa mig og ég veit að svo er um flesta hér inni — að það er mjög sárt að niðurstaðan skuli hafa orðið sú að ekki fannst önnur leið en að fara inn í almannatryggingakerfið og draga til baka þær bætur sem lífeyrisþegar, öryrkjar og aldraðir áttu rétt á til að halda í kjör vinnumarkaðarins og halda þeim lífskjörum sem aðrir hafa í landinu. Þetta er erfitt og ég er alveg sannfærð um að þó svo að það standi að þær skerðingar sem hér eru lagðar til geti náð til næstu fjögurra ára að þá verða þetta þær skerðingar sem munu fyrst ganga til baka ef betur gengur að afla tekna eða rétta hag þjóðarbúsins á næstu fjórum árum. Það er alveg ljóst. Það sem skiptir máli að mínu viti fyrir utan þær skerðingar sem hér eru lagðar til og eru sársaukafullar er að núna á allra næstu mánuðum notum við þá kreppu — ef hægt er að segja sem svo að hægt sé að nota kreppu. Það er hægt að nota kreppu á neikvæðan og jákvæðan hátt. Kreppa getur líka gefið okkur tækifæri til að breyta hugsunarhætti, til að breyta aðferðum, til að breyta kerfum, til að auka samvinnu, til að fá fólk til að horfa til baka og gera meira en bara íhuga, hugsa heldur raunverulega: Erum við hér í okkar þjónustu að veita eitthvað sem er óþarfi eða íburður eða eins og kallast á ensku, með leyfi forseta, „nice to have“ eða er þetta eins og heitir á ensku „must have“. Er þetta eitthvað sem er gott að hafa eða er þetta þjónusta sem við verðum að hafa?

Við höfum auðvitað leyft okkur á mörgum sviðum að vera með miklu hærra þjónustustig en nauðsyn krefur og það á kannski sérstaklega við um heilbrigðisþjónustuna þar sem við höfum meiri þjónustu en nauðsyn krefur. Það er á þessu sviði sem ég tel að við getum varið velferðarþjónustuna með því að setja þjónustuna niður á það þjónustustig sem er rétt. Þá sitjum við uppi með það að á þeim árum sem hafa verið hin miklu velmektarár, góðærið, sinntum við því ekki að byggja upp heilsugæsluna, grunnþjónustuna, á höfuðborgarsvæðinu öllu, hún stendur tiltölulega traust úti á landi en er veik hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er dýrt að vera fátækur en ég tel að þetta sé það sem við þurfum að gera, við þurfum að treysta grunnþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu til að geta farið úr því dýra eða dýrara þjónustustigi sem við höfum í dag að við getum leyft okkur að sækja til sérfræðinga með krankleika eða einkenni sem við ættum að fara með í grunnþjónustuna, heilsugæsluna. Þetta er án þess að nokkuð sé verið að ógna öryggi eða heilsu fólks að þjónusta sé veitt á réttu þjónustustigi.

Við þurfum líka að að nota næstu mánuðina og vinna hratt að því að halda áfram að endurskoða grunnhugmyndafræði almannatryggingakerfisins og hætta að horfa á þetta út frá bótum og vangetu öryrkja heldur förum að vinna með breyttum hugsunarhætti um getu öryrkja og hvað þeir geta lagt fram, hvaða vinnugetu þeir hafa og byggja stuðning okkar á því. Við þurfum líka að efla heimaþjónustu, bæði hjá öldruðum og langveikum, en hún er í flestum tilfellum ódýrari og í nær öllum tilfellum mannlegri en hin dýra heilbrigðisþjónusta sem er veitt inni á stofnunum. Það gefur fólki meiri lífsfyllingu og betri heilsu, sama hvort það er langveikt eða öryrkjar, að fá viðhlítandi þjónustu heim og þá er ég að tala um góða þjónustu, samþættingu heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu. En þetta kostar nýja hugsun, nýja samvinnu og breytt munstur og ég tel að við getum notað það alvarlega efnahagsástand sem við búum við núna á jákvæðan hátt og farið inn í kreppuna með jákvæða uppbyggingu til betri lífsgæða.

Annað sem ég vil líka minnast á, hæstv. forseti, er að þær tillögur sem hér hafa komið fram um að ganga á grunnlífeyri, þ.e. að lífeyrissjóðsgreiðslur geti skert grunnlífeyri, þýða ekki eingöngu skerðingu á grunnlífeyri viðkomandi lífeyrisþega heldur hafa þær hliðaráhrif sem ég tel að hæstv. heilbrigðisráðherra, hæstv. félagsmálaráðherra og ráðuneytin verði að skoða vel. Hvað það þýðir ef grunnlífeyririnn fellur út og hvaða skerðingu lífeyrisþegar verða þá fyrir í annarri þjónustu eins og tannlækningum, sjúkraþjálfun og fleiru. Margir þjónustuþættir byggja á því að grunnlífeyrir sé til staðar eða tekjutrygging. Mikilvægt er að fara yfir þetta því með þessum bandormi og þeim tillögum sem hér liggja fyrir var það ekki hugmyndin og hefur aldrei verið að það yrðu enn frekari skerðingar en hér koma fram og er þá nóg þannig að ég tel mjög mikilvægt að farið verði sem allra fyrst í þessa vinnu.

Hæstv. forseti. Hér hefur mikið verið talað um það að við þurfum að fara og ná okkur út úr þessari kreppu með því að efla atvinnu og ég tek sannarlega undir það. Ég vil minna á að velferðarþjónustan er líka atvinnugrein og skapar bæði störf og ekki síður tekjur. Ég vara við því að nú þegar svo mikið ríður á að skapa fleiri störf sé út frá núverandi atvinnuleysi rokið til og komið hér á mannfrekum framkvæmdum, þ.e. stóriðju eða störfum sem eru mjög orkukrefjandi og dýr, heldur sé horft til framtíðar með sjálfbærni í huga þannig að við gleymum okkur ekki í því að bjarga núinu og gleymum að horfa til framtíðar. Vissulega erum við auðug þjóð. Við erum vel menntuð þjóð, við eigum mikil auðæfi í náttúru landsins, við eigum líka mikla möguleika og tækifæri til að nýta náttúruna á annan hátt heldur en virkja hana hið snarasta, þ.e. virkja hana til orkufreks iðnaðar. Þannig að ég vara við því að við gleymum okkur í núinu við að koma hér á fleiri störfum í stóriðjuframkvæmdunum því þá þurfum við að hugsa dæmið lengra, við þurfum að horfa til framtíðar um orkuöflunina líka og hún er ekki á lausu.

Lífeyrissjóðirnir hafa verið nefndir og mismunandi aðkoma þeirra. Eins hafa hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og fleiri nefnt tillögur sem komið hafa fram um að skattleggja lífeyrissjóðsgreiðslur fyrir fram en eins og líka hefur komið fram hafa þessar hugmyndir verið skoðaðar og ræddar bæði hjá lífeyrissjóðunum og eins inni í hópnum sem kom að stöðugleikasáttmálanum og ég vil fyrir mitt leyti fagna því að sátt hafi náðst með launþegum þessa lands. Ég vil minna enn og aftur á það að við gerð slíkra sáttmála ber og á að hafa fulltrúa lífeyrisþega með að borðinu. Það er yfir 40 þúsund manna hópur sem í raun og veru þiggur eða tekur samfélagslaun og það er ekki sama hvernig farið er með þá þannig að þegar verið er að ræða við launþega á almennum markaði tel ég að fulltrúar lífeyrisþega eigi að koma beint að borðinu. Ég fagna þessu þó að ég sé ekki fyllilega sátt við ýmis atriði þarna, t.d. stóriðjuna, en þeim hlutum víkur maður til hliðar. Við þurfum að komast saman í gegnum þetta og þetta er sá grunnur sem við ætlum að byggja á ásamt bandorminum sem við ræðum hér.

Mér finnst mikilvægt að lífeyrissjóðirnir komi að málum eins og uppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss, sem er framkvæmd sem ég tel að öll þjóðin geti svo staðið á bak við. Það er mikilvægt. Hvað varðar tónlistarhúsið, þá er alveg sorglegt eins og annað að við skulum sitja uppi með gerðan hlut og það er alveg forkastanlegt og það gagnrýndum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að í einni línu í fjárlögum skuli hafa verið gefin heimild til að fara í þessa miklu byggingu, en a.m.k. rekstrinum hlaut að vera komið yfir á ríki og Reykjavíkurborg. En þarna átti að treysta einkaframtakinu sem átti alveg að sjá um þetta þannig að það þyrfti ekki að koma frekar inn á borð Alþingis eða vera hluti af fjárlagagerðinni.

Hér var nefndur glerhjúpurinn. Við skulum aðeins staldra við og huga að því hvað flottræfilshátturinn leiddi okkur út í þegar tekin var sú ákvörðun að hafa húsið með glerhjúpi framleiddum í Kína. Um þetta er búið að gera samninga og ekki viljum við að samningum sé rift við okkur. Svona stendur þetta og ég held að við ættum aðeins að skoða það og læra af þessu hvernig við og þjóðin fór fram úr sér. Við ræðum líka um að mikilvægt sé að halda áfram með stóriðju á ýmsum sviðum, ekki bara álver heldur efla orkufrekan iðnað og þá vil ég minna hv. þingmann á stöðu Landsvirkjunar og hver hún er í dag og hvort við hefðum ekki betur farið okkur aðeins hægar og sagt a.m.k. eins og kerlingin, að betra mun og jafnara. Kárahnjúkavirkjun fer ekki vel með okkur og ekki þau lán sem Landsvirkjun tók vegna þeirrar miklu og stóru framkvæmdar. Og talandi um sjálfbærni þá vil ég draga það enn og aftur í efa að sú framkvæmd sé arðbær, bæði hvað varðar fjárfestinguna sem slíka og eins umhverfisáhrifin því ég er ansi hrædd um að við sem búum á Fljótsdalshéraði munum finna fyrir afleiðingum leirryksins nú í sumar eftir að svo lágt hefur verið stemmt í lóninu í vetur.