137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[19:47]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var reyndar ekki þetta sem ég var að tala um, ég var að tala um það hve miklir peningar væru á bak við hvert starf og var svona að leiðrétta misskilning sem kom fram í máli hv. þm. Þuríðar Backman. Hún sagði annað núna sem gefur tilefni til að hægt sé að spjalla aðeins um það og það er að útflutningstekjur okkar Íslendinga skiptast og þrír stærstu póstarnir eru stóriðja, ferðamennska og útflutningur á fiski. Nú vill svo til að á bak við þær gjaldeyristekjur sem skapast af þessu þá er mest mengun af ferðamennskunni, næstmest af fiskveiðum og minnst af álverum. Ef okkur er umhugað um að menga sem minnst ættum við væntanlega að reisa sem mest af álverum samkvæmt þeim rökum.

Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það að við eigum að hafa sem mesta fjölbreytni í atvinnulífi en aftur á móti er ég ekki sammála um að við höfum svo mikinn tíma vegna þess að nákvæmlega eins og hv. þingmaður rakti í ræðu sinni þá erum við að skera niður í málefnum aldraðra og öryrkja, fatlaðra bæði á þessu ári og enn meira á næsta ári og við erum að leggja gríðarlega þungar byrðar á heimilin. Okkur liggur því á að fá tekjur bæði til þess að búa að velferð þessara hópa og til þess að geta t.d. staðið undir Icesave-skuldbindingum sem væri gaman að vita hvort hv. þingmaður ætlar að styðja.