137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[19:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég vildi koma örstutt upp til að gera grein fyrir því að þegar þetta mál kom inn í nefnd var því vísað áfram til allsherjarnefndar þar sem m.a. var fjallað um ákvæði er sneri að því að fresta svokölluðum þjóðlendulögum. Nefndin ræddi töluvert um það og fékk m.a. á sinn fund fulltrúa frá óbyggðanefnd og fulltrúa frá forsætisráðuneytinu. Sá sem hér stendur gerði fyrirvara við meirihlutaálit nefndarinnar og taldi að eðlilegra og heppilegra hefði verið að fresta einnig aðgerðum á svæði 7B þar sem búið var að lýsa kröfum og senda út kröfubréf en málið var ekki lengra komið. Óbyggðanefnd féllst ekki á þetta og það var ekki vilji til þess hjá meiri hluta nefndarinnar að gera þetta. Með því fororði var fyrirvari minn á þessu nefndaráliti en að öðru leyti studdi ég það að fresta þessum þjóðlendukröfum.