137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[19:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil sem formaður efnahags- og skattanefndar þakka hv. þingmönnum fyrir málefnalega umfjöllun um þessar ráðstafanir í ríkisfjármálum eða bandorm. Gerðar hafa verðið ýmsar athugasemdir og sumar ekki að ósekju við málið og hvernig það er búið, enda málið þess eðlis að hér er um að ræða ráðstafanir sem gripið er til á miðju fjárlagaári vegna framúrkeyrslu og við þær aðstæður er auðvitað, eins og þingmenn þekkja, úr takmörkuðum úrræðum að spila. Þær ákvarðanir sem ríkið tekur til þess að draga úr rekstrarumsvifum sínum eða spara eru jafnan talsvert lengi að ná áhrifum í ríkisrekstrinum sakir ýmissa hluta, réttinda starfsmanna, ferlum sem vera þurfa við sameiningar stofnana eða aðra hagræðingu stjórnsýsluréttar og annarra þátta. Þess vegna er m.a. meiri þungi í skattahlutanum á þessum breytingum en gert er ráð fyrir í aðgerðum í ríkisfjármálum á næsta ári og þarnæsta ári.

Menn sjá hins vegar heildarmyndina í ríkisfjármálunum best í þingskjali 173 sem er skýrslan um áætlanir í ríkisfjármálum fyrir næstu árin en hér er í sjálfu sér fyrst og fremst um að ræða leiðréttingu innan ársins og auðvitað er hér því miður farið í ýmis ágæt framfaraverkefni og sneitt að hópum sem full ástæða er til að halda uppi málsvörn fyrir í þingsalnum og vekja athygli á og þakka ég fyrir þá umfjöllun.

Ég legg svo til við lok þessarar umræðu að málið gangi til 3. umr. og hv. efnahags- og skattanefndar til stuttrar umfjöllunar milli umræðna.