137. löggjafarþing — 27. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[21:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti við 3. umr. frá meiri hluta hv. efnahags- og skattanefndar Alþingis. Hér er um að ræða þrjú atriði, tvær breytingar og eina áréttingu sem meiri hlutinn gerir milli 2. og 3. umr.

Það er í fyrsta lagi sem lýtur að 4. gr. frumvarpsins þar sem svokallaður sykurskattur var lagður til. Þar var gert ráð fyrir því að flytja upp um virðisaukaskattsþrep gos og sælgæti sem við umfjöllun í nefndinni kom í ljós að lagðist á fleiri vöruflokka en þá sem innihalda sykur, meðal annars á djús og vatn sem þótti skjóta skökku við og vera í andstöðu við yfirlýst markmið með sykurskattinum, en lagðist hins vegar ekki á ýmsa vöruflokka sem innihalda einvörðungu sykur eins og sykurmola og aðra slíka vöru. Því var farið fram á það við fjármálaráðuneytið að fyrri hugmyndir ráðuneytisins um hreinan sykurskatt í formi vörugjalda eins og við áður þekktum hér á þarsíðasta ári yrði tekinn upp aftur og þannig beitt svipuðum aðferðum og gert er í Danmörku við að skattleggja sykur sérstaklega. Lúta tillögurnar að því að í stað þeirra ákvæða er lutu að breytingum á virðisaukaskattskerfinu í 4. gr. með þessi neyslustýringarmarkmið í huga komi inn kafli um vörugjöld þess í stað sem nái betur þeim markmiðum að hækka sérstaklega verð á vöru vegna sykurinnihalds og í hlutfalli við sykurinnihald hennar.

Vörugjöldin hafa þó, eins og þingmenn þekkja, þann ágalla að það er nokkuð flókið kerfi og kallar á nokkurt skrifræði enda þegar hér lék allt í lyndi og nóg var af fjármunum í ríkissjóði reyndu menn þegar þeir töldu sig hafa efni á því að afnema þennan þátt. En hér er augljóslega nauðsynlegt að hverfa aftur til fyrra horfs í þessu efni eins og í ýmsum öðrum efnum.

Í öðru lagi er hér, virðulegur forseti, um það að ræða að nokkuð er dregið úr þeim ráðstöfunum sem gert var ráð fyrir að grípa til vegna Ábyrgðasjóðs launa. Þar var gert ráð fyrir því að hverfa frá því að vaxtareikna þær kröfur sem menn eiga á Ábyrgðasjóð launa. Það sætti í umfjöllun í hv. efnahags- og skattanefnd talsverðum andmælum, einkum frá aðilum vinnumarkaðarins. Gert var ráð fyrir því að þær tillögur mundu draga úr útgjöldum Ábyrgðasjóðs um sem nemur 140 millj. kr. á ári og er það tillaga meiri hluta efnahags- og skattanefndar að draga úr þeim aðgerðum með þeim hætti að eftir sem áður verði vaxtareiknaðar launakröfur fólks á Ábyrgðasjóðinn og sömuleiðis verði eftir sem áður vaxtareiknaðar kröfur sem launafólk á vegna orlofs á hendur Ábyrgðasjóðnum og það njóti þess vegna eðlilegra vaxtagreiðslna vegna þeirra krafna sem lúta að þessum tveimur þáttum. Hins vegar verði ekki vaxtareiknað vegna greiðslna á uppsagnarfresti enda liggur það fyrir að þegar þannig háttar til nýtur fólk greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði, hlutfalls af launum, og hefur þannig fengið aðstoð hins opinbera á þeim tíma sem þær greiðslur eiga til að falla. Því telur meiri hlutinn forsvaranlegt að falla frá því að vaxtareikna kröfur frá þeim tíma og að sömuleiðis verði ekki vaxtareiknuð iðgjöld í lífeyrissjóði enda eigi lífeyrissjóðirnir að geta gengið hratt og vel eftir greiðslu á sínum hlut. Það dregur sem sagt úr þeim sparnaði sem vegna þessara ráðstafana verður úr 140 milljónum um það bil í um 70 milljónir.

Í þriðja lagi er áréttað varðandi upptöku fjármagnstekjuskatts eða hærra þreps í fjármagnstekjuskatti, 15%, að það frítekjumark sem í frumvarpinu er vísað til og miðað er við vaxtatekjur af innstæðum af venjulegum sparnaði, sparnaði kannski allt að 2 millj. kr., sæti ekki þessari sérstöku skattlagningu, viðbótar 5% fjármagnstekjuskatts, en skilja mátti texta frumvarpsins eins og hann lá fyrir þannig að frítekjumarkið þýddi að allar vaxtatekjur undir því mundu engri skattlagningu sæta. En eins og þingmönnum er kunnugt var ætlunin fyrst og fremst sú að þær sættu áfram óbreyttri skattlagningu, þ.e. 10% og síðan greiddu menn af vaxtatekjum umfram þessi mörk 15% eða 5% aukalega.

Aðrar breytingar eru ekki gerðar hér milli umræðna og leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði að þessum breytingum samþykktum samþykkt sem lög frá Alþingi.