137. löggjafarþing — 27. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[21:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má taka undir það með hv. þingmanni að það er mikilvægt að við hugsum um það sem við gerum á Alþingi. Það er auðvitað þannig með það mál sem hann vísar til að í raun og veru er verið að leiða inn aftur þá skipan sem áður var og hlutfallslega eru þau gjöld sem hér er verið að leggja á innbyrðis með alveg sama hætti og áður var þó að upphæðirnar séu nokkuð hærri. Hér er fyrst og fremst verið að afturkalla afnám ýmissa vörugjalda sem ráðist var í fyrir nærfellt tveimur árum og ljóst er að ríkissjóður getur ekki staðið undir eða látið frá sér fara miðað við þá stöðu sem nú er uppi í fjármálum hans.

Ég get tekið undir það og ég held að við séum öll í þessum sal okkur vel meðvituð um það að þessu kerfi fylgir sá annmarki að það er býsna flókið og því fylgir ýmislegt skrifræði. Það er engu að síður notað af ýmsum þjóðum, m.a. af Dönum, og það var niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að það endurspeglaði betur það markmið að skattleggja sykur en sú tillaga sem fyrir lá og hefði valdið því að óbreyttu að við hefðum verið að hækka gjöld á vörur eins og vatn og vörur eins og djús og þær óæskilegu afleiðingar af þeirri breytingu þekkir hv. þingmaður og hélt m.a. sjálfur til haga í umfjöllun nefndarinnar.