137. löggjafarþing — 28. fundur,  29. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[10:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ljúka meðferð máls þar sem við sjálfstæðismenn höfum bent á leiðir til að betrumbæta frumvarpið. Það hefur í einhverjum tilvikum verið gert og við vorum rétt í þessu að breyta frumvarpinu til betri vegar. En við höfum því miður ekki trú á því að þetta frumvarp skili þeim sköttum og þeim tekjuauka fyrir ríkið sem að er stefnt. Við höfum bent á aðrar leiðir til að auka tekjur ríkisins. Við höfum teflt fram okkar eigin efnahagstillögum og þetta frumvarp í heild sinni gengur gegn þeim meginhugmyndum sem við höfum um það hvernig við getum unnið okkur út úr þeim vanda sem við er að etja. Við höfum gert athugasemdir við það hvernig hátekjuskatturinn er útfærður í þessu máli og við höfum bent á að með annarri nálgun væri hægt að forðast að ganga jafnhart fram gegn eldri borgurum og öryrkjum eins og gert er í þessu máli. Við höfum áður haft uppi athugasemdir við (Forseti hringir.) afdráttarskattinn eins og hann er útfærður. Af þessum ástæðum öllum getum við ekki stutt málið.