137. löggjafarþing — 28. fundur,  29. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[10:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þarf varla að taka fram að ég styð málið en ég nota tækifærið og þakka hv. efnahags- og skattanefnd og öðrum nefndum sem komu að vinnu þessa frumvarps fyrir mikla og góða vinnu og farsæla afgreiðslu á málinu sem er ákaflega mikilvæg, að það nái afgreiðslu fyrir mánaðamótin.

Ég gæti svo sem sagt að mér kemur liturinn á töflunni nokkuð á óvart. Það má að sjálfsögðu finna ýmislegt að þessum ráðstöfunum. Þær eru erfiðar en óumflýjanlegar og mér finnst það umhugsunarefni að stjórnarandstaðan eða stærsti hlutur hennar virðist telja sig færa um að leggjast gegn aðgerðum af þessu tagi, væntanlega ekki með vísan til þess að eitthvað af þessu tagi þurfi ekki að gera. Það fer að sjálfsögðu enginn fram á að stjórnarandstaðan styðji það sem henni finnst erfitt að standa að en það er umhugsunarefni (Forseti hringir.) að Sjálfstæðisflokkurinn skuli vera á því stigi í tilveru sinni að hann leggist gegn óumflýjanlegum og brýnum aðgerðum (Gripið fram í.) til að ná tökum á ríkisfjármálum. (Gripið fram í.)