137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

ummæli ráðherra um Icesave-ábyrgð.

[15:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hæstv. viðskiptaráðherra hefur að undanförnu ferðast mikið um heiminn og rætt við fjölmiðla og kynnt Ísland sem hið nýja Enron, væntanlega til að laða hingað fjárfesta. Núna segir hæstv. viðskiptaráðherra að ef Ísland fallist ekki á Icesave-skuldbindingarnar verði Ísland Kúba norðursins, og talsmaður Samfylkingarinnar í efnahagsmálum styður reyndar þennan málflutning en telur rétt að bæta um betur og talar um Norður-Kóreu vestursins. Þennan málflutning taka hæstv. ráðherrar undir, þar með talið og sérstaklega hæstv. viðskiptaráðherra.

Ég tel eðlilegt að hæstv. viðskiptaráðherra svari því hvernig hann leyfir sér að viðhafa slíkan hræðsluáróður, hvað hann hefur sem styður þennan málflutning, hvaða gögn liggi fyrir um þetta. Hvers vegna ætti Ísland að verða Kúba norðursins ef Alþingi staðfestir ekki samningsdrög og segist vilja ræða málið betur, fá betri samning? Er hæstv. ráðherra að segja að þá verði beitt einhvers konar viðskiptalegum hernaði, viðskiptahryðjuverkum nánast, af þjóðum sem vel að merkja stunda viðskipti við ríki um allan heim, helstu mannréttindabrjóta heimsins, ríki í stríðsástandi? Þessi ríki stunda viðskipti við þessi lönd vegna þess að þau telja það viðskiptalega hagkvæmt. Heldur hann að ef Alþingi Íslendinga staðfesti ekki samningsdrögin muni þessi ríki beita okkur slíkum viðskiptaþvingunum að íslenskt efnahagslíf verði lagt í rúst og Ísland verði Kúba norðursins? Hvernig leyfir hæstv. ráðherra sér að halda fram slíkum málflutningi? Er þetta ekki til marks um að öll þau rök sem færð hafa verið fyrir því að Icesave-samninginn beri að staðfesta hafa nú reynst innihaldslaus? Það er ekkert eftir nema innihaldslaus hræðsluáróður, hræðsluáróður sem er ekki sæmandi ríkisstjórn og hræðsluáróður sem er ekki líðandi í máli sem varðar framtíð þjóðarinnar.