137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

ummæli ráðherra um Icesave-ábyrgð.

[15:12]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það er alveg rétt sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók fram, ég hef bent á að margt í aðdraganda íslenska bankahrunsins á sér sameiginlega fleti með því sem gerðist í Bandaríkjunum hjá fyrirtækinu Enron. Þar fóru menn fram með blekkingum og ýmsum loforðum sem reyndust innstæðulaus, um margt svipað og þau fjármálafyrirtæki sem nú eru fallin. Það að viðurkenna þetta fyrir umheiminum er einfaldlega hreinskilni og við verðum að vera hreinskilin ef við ætlum aftur að öðlast trú nágranna okkar á því að við séum heiðarlegt fólk sem stendur við gefin loforð og gerða samninga.

Samlíkingin við Kúbu er af sama meiði. Ef við Íslendingar göngumst ekki við eðlilegum skuldbindingum okkar, stöndum ekki í skilum með það sem við höfum lofað og upp á okkur stendur mun enginn vilja eiga í viðskiptum við okkur, ekkert frekar en aðra óreiðumenn svo notað sé hugtak sem hefur verið hent inn í þessa umræðu af öðrum en mér. (Gripið fram í.) Það er bara einfaldlega þannig að (Gripið fram í.) það vill enginn lána landi sem gerir ekki upp skuldir sínar, það vill enginn eiga í viðskiptum við það. Það er einfaldlega ekki viðræðuhæft. (Gripið fram í: …viðskiptabann.) (EyH: Ertu búinn að tala við Argentínumenn?) Það þarf ekki að leita til Argentínu til að finna samlíkingu. Það er einfaldlega þannig að það vill enginn tala við þá sem hafa misst traust sitt, það vill enginn lána þeim. (Gripið fram í.) Það liggur t.d. fyrir í þessu máli að fyrirgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og það fé sem honum fylgir er allt saman skilyrt því að við stöndum í skilum, (Gripið fram í: Nú?) (Gripið fram í.) þar á meðal við Icesave. (Gripið fram í.) Aðstoðin frá Norðurlöndunum (Gripið fram í.) hangir líka á því að við séum ekki óreiðufólk, heldur fólk sem hægt er að eiga samninga við, fólk sem stendur við gefin fyrirheit.