137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

ummæli ráðherra um Icesave-ábyrgð.

[15:15]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Það var svo margt í þessari stuttu ræðu sem ég tel rangt eða er ósammála að ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. Ég ætla þó að velja eitt atriði sem er að við Íslendingar getum ekki staðið undir þeim skuldbindingum sem á okkur eru lagðar vegna þessa Icesave-samnings, það er einfaldlega rangt. (Gripið fram í: Reiknaðu.) Ég hef reiknað (Gripið fram í.) og ég get nefnt nokkrar tölur. (Gripið fram í.)

Útflutningstekjur Íslendinga á hverju ári, tekjur af útflutningi á vörum og þjónustu án eignatekna, hafa verið rétt ríflega 5 milljarðar evra á ári undanfarin ár og þessi tala hefur vaxið um 8% á ári að meðaltali í 15 ár. (Gripið fram í: Það er kreppa.) Það er kreppa en hún kemur ekki svo mikið niður á útflutningsatvinnuvegum. Það er ekkert sem bendir til annars en að þessar tekjur dugi vel til þess að standa í skilum með það sem út af stendur (Gripið fram í.) af því sem Landsbankinn getur ekki greitt og vextina að auki. Þessar tekjur eru vissulega til ráðstöfunar því að þetta er það sem þjóðarbúið býr til á hverju ári, (Gripið fram í.) þetta er það eina sem við höfum til ráðstöfunar vegna þess að þetta eru þau verðmæti sem við búum til (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) og munum búa til á næstu 15 árum. (Gripið fram í.)