137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

stóriðjuframkvæmdir.

[15:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það kom fram í síðustu viku að sérfræðingar OECD teldu Ísland vera í hópi þeirra ríkja sem ekki gætu staðið undir framkvæmdum á næstu árum sem kostaðar væru af hinu opinbera. Það kom fram hjá þessum sömu sérfræðingum að efnahagur okkar mundi dragast saman á næstu árum, sem eru svo sem engin ný sannindi.

Það kom einnig fram á þessum fundi og í yfirlýsingum þessara sérfræðinga að Ísland væri ríkt af auðlindum og að íslenskur efnahagur mundi einkum með fjárfestingum í stóriðju standa undir því að endurreisa íslenskan efnahag á næstu árum. Þá er væntanlega verið að vitna til þess að erlendir aðilar komi til landsins og fjárfesti frekar í stóriðju sem byggir á skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda landsins.

Ég vil af því tilefni beina spurningu til hæstv. fjármálaráðherra og spyrja hann að því hvað ríkisstjórnin er að gera til að greiða fyrir aukinni stóriðju til landsins, hver stefnan er á þeim vettvangi og hvaða aðgerðir ríkisstjórnin er með í gangi til þess að efla þann þátt í íslensku samfélagi. Ég vil einnig heyra um hver staðan er varðandi Helguvík alveg sérstaklega og hver staðan er varðandi staðfestingu ríkisstjórnarinnar á fjárfestingarsamningi vegna Helguvíkur, sem mér skilst að standi svo mjög á.