137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

tvöföldun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar.

[15:24]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Í fundargerð frá 4. júní sl. frá samstarfshópi frá aðilum vinnumarkaðarins kom fram vilji lífeyrissjóðanna til að koma að ýmsum verkefnum hér á landi og viðræður þess efnis fóru fram í október sl. Um er að ræða verkefni eins og t.d. styrkingu gjaldeyrisforða, samgöngumannvirki og ýmis önnur þjóðþrifamál. Sumt hefur reyndar ekki verið rætt um við lífeyrissjóðina frá því í október og önnur mál er nýlega farið að ræða um við lífeyrissjóðina. Betra er seint en aldrei.

Þá bregður svo við að um helgina var fréttaflutningur af samgöngumálum þar sem margt orkaði tvímælis. Hæstv. samgönguráðherra sagði að framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng og samgöngumiðstöð í Reykjavík væru nú til skoðunar því að þau væru svo gott sem búin skipulagslega en önnur verkefni eins og tvöföldun og breikkun Suðurlandsvegar og tvöföldun Vesturlandsvegar með mikilvægum aðgerðum á Kjalarnesi væru ekki komin eins langt.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hverju þetta sæti, hvort hér sé tekið tillit til öryggismála þar sem þessir tveir vegir, Vesturlandsvegurinn og Suðurlandsvegurinn, eru einhverjar alvarlegustu slysagildrurnar á landinu. Og þrátt fyrir kosningaloforð hæstv. ráðherra þar sem hann hélt blaðamannafund og boðaði alla þingmenn Suðurlands, stjórn SASS, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga og samgöngunefndir til fundar við sig þar sem kynnt var með lúðraþyt að nú ætti að bjóða út þetta verkefni í haust og loksins færi þessi tvöföldun og breikkun af stað.

Hvar standa þau loforð sem gefin voru fyrir kosningar þegar þessi skilaboð koma síðan í kjölfarið þrátt fyrir að annað komi fram? Ráðherrann sagði að hér væru óundirbúin mál en ég hef upplýsingar um það bæði frá vegamálastjóra og starfsmönnum Vegagerðarinnar á Suðurlandi (Forseti hringir.) sem og sveitarstjóra að vegurinn á Suðurlandi sé hvað skipulag varðar tilbúinn allt að Hveragerði.