137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

tvöföldun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar.

[15:26]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp. Það kemur líka fram í viðtalinu í Morgunblaðinu að ég fagna mjög áhuga lífeyrissjóðanna, og gerði það svo sem löngu áður, að þeir vilji koma inn og lána peninga til samgönguframkvæmda meðal annarra verkefna.

Í gildandi samgönguáætlun er talað um nokkuð mörg verk sem vinna á í einkaframkvæmd. Nærtækast er að taka dæmi úr kjördæmi hv. þingmanns sem var smíði nýs Herjólfs og fyrir um það bil ári síðan var farin sú leið að bjóða það út í einkaframkvæmd. Tilboðin voru því miður það há að þeim var hafnað, m.a. út af ástandi peningamála í heiminum. Þá var farið í að bjóða það út í ríkisframkvæmd en þá kom hrunið.

Önnur verk sem nefnd eru á samgönguáætlun sem einkaframkvæmdarverk eru t.d. tvöföldun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar og Sundabraut, Hvalfjarðargöng og Vaðlaheiðargöng eru tíunduð þar inn. Samgöngumiðstöðin er jafnframt á samgönguáætlun og áður hef ég nefnt Herjólf. Að öllum þessum verkum er verið að vinna, þar með talið tvöföldun Suðurlandsvegar og var tilkynnt í vetur um hvernig vinna skyldi að honum. Það myndaðist víðtæk sátt um þá leið sem þar átti að fara og vil ég þakka sveitarstjórnarmönnum og forsvarsmönnum SASS alveg sérstaklega fyrir hvað ríkti mikil eindrægni um málið. (Gripið fram í.) Sú undirbúningsvinna stendur yfir. (Gripið fram í.) Ég heyri að hv. þm. Árni Johnsen hefur aðra skoðun á því og við því er ekkert að gera. Hann tilkynnti það á sínum tíma en að því frátöldu held ég að það hafi ríkt almenn sátt um þessa leið.

Að öllum þessum undirbúningsverkum er því verið að vinna en þau eru að sjálfsögðu misjafnlega langt komin hvert og eitt.