137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

fundarstjórn.

[15:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég býð forseta velkominn frá Ungverjalandi þar sem hæstv. forseti var viðstaddur hátíðlega athöfn í tilefni þess að kommúnisminn féll í Austur-Evrópu fyrir 20 árum. Ég vona að hæstv. forseti hafi þar rifjað upp mikilvægi þess að lýðræðisleg umræða fái notið sín og að þeir sem fara með stjórnina hverju sinni noti ekki aðstöðu sína til að halda í skefjum minni hlutanum eða þeim sem kunna að vera ósammála.

Ég verð að segja að mér þykir algjörlega óviðunandi hvernig hæstv. forseti truflar þingmenn sem kveðja sér hljóðs til að ræða fundarstjórn forseta nánast í hvert skipti. Er ástæða til að fara að rifja upp hvernig hæstv. forseti talaði undir liðnum um fundarstjórn forseta síðustu ár eða áratugi, hvernig hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. utanríkisráðherra eða aðrir ráðherrar í stjórninni notuðu þennan lið? Á ekki hið sama að gilda núna þegar ný stjórn er (Forseti hringir.) — og ný stjórnarandstaða?