137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[15:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir lagafrumvarpi frá meiri hluta hv. efnahags- og skattanefndar sem er að finna á þskj. 186. Það er mál nr. 133, frumvarp til laga um auknar lánsfjárheimildir til ríkissjóðs og varðar annars vegar 50 milljarða lánsfjárheimild vegna Landsvirkjunar og hins vegar 290 milljarða viðbótarlánsfjárheimildir fyrir ríkissjóð umfram það sem er að finna í 5. gr. fjárlaga ársins, af heimildum, en þar er um að ræða eina 660 milljarða í 1. og 4. tölulið 5. gr. fjárlaga yfirstandandi árs.

Lánsfjárþörf Landsvirkjunar má rekja til endurfjármögnunar sem áður var gerð grein fyrir og sömuleiðis til framkvæmda sem hún hefur gert grein fyrir að hún sé búin undir að ráðast í. Lánsfjárþörf ríkissjóðs liggur nú fyrir með betri hætti en var við afgreiðslu fjárlaga, enda hefur skýrst úr mörgum málum sem þá voru í móðu. Þannig er lánsfjárþörf ríkissjóðs sjálfs áætluð um 250 milljarðar kr. Lánsfjárþörf vegna endurfjármögnunar viðskiptabankanna, Nýja Glitnis, Nýja Kaupþings og Nýja Landsbankans, gæti orðið allt að 385 milljarðar kr. Þá eru heimildir vegna lána frá Norðurlöndunum upp á um 230 milljarða og síðan vegna þeirra lána sem höfum sótt frá Pólverjum og Rússum og átt í viðræðum við upp á 85 milljarða. Samtals er hér um að ræða lánsfjárheimildir sem ríkissjóður þarf á yfirstandandi ári fyrir allt að 950 milljörðum en heimildir í fjárlögum yfirstandandi árs eru 660 milljarðar, eins og áður sagði, og því vantar 290 milljarða upp á að fullnægjandi heimildir séu fyrir hendi.

Auk mín er málið flutt af hv. nefndarmönnum Magnúsi Orra Schram, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, Álfheiði Ingadóttur og Ásmundi Einari Daðasyni.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málinu verði að lokinni umfjöllun vísað til hv. efnahags- og skattanefndar. Eðli málsins samkvæmt sendir hún það enn fremur til umfjöllunar í fjárlaganefnd sem alla jafna fjallar um lánsfjárheimildir í fjárlögum fyrir hvert ár um sig þó að fyrir því séu fordæmi að slíkar heimildir séu sóttar í sérstökum frumvörpum eins og nú er gert vegna þessara sérstöku aðstæðna og flutt af hv. efnahags- og skattanefnd. Það er fyrst og fremst vegna þess að í ljós kom í tengslum við vinnu við bandorminn svokallaða, þ.e. heildarfrumvarpið um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem var til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd, að þörf væri á þessum auknu heimildum. Taldi nefndin mikilvægt að ekki stæði á heimildunum í því þegar sótt væri lánsfé fyrir ríkissjóð á yfirstandandi ári því að nægir yrðu þröskuldarnir í þeim efnum þó að Alþingi væri ekki einn þeirra.