137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[15:47]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál ber frekar brátt að fyrir okkur þingmenn, þ.e. að nú sé verið að sækjast eftir þessari viðbótarlánsfjárheimild. Þetta hefur ekki komið fram áður. Það vekur nokkra undrun að málið skuli vera lagt fram af hálfu meiri hluta efnahags- og skattanefndar en ekki framkvæmdarvaldsins sem hefur miklu betri yfirsýn að maður gæti haldið yfir þessar skuldbindingar sem upp á þjóðina standa. Það vekur þess vegna dálitla undrun hvernig málið kemur inn.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Helga Hjörvar að því hvenær þessi staða kom upp. Hvenær kom það fram að við þyrftum á þessum viðbótarlánsfjárheimildum að halda? Hvernig stendur á því að ekki var þá haft — vegna þess að bandormurinn var í umræðu í öðrum þingnefndum og hv. þingmaður nefndi sérstaklega fjárlaganefnd sem hefur þetta verkefni með höndum að halda utan um þessa þætti og taka á þeim, kom þá ekki til álita þegar þetta mál kom fram í efnahags- og skattanefnd að það yrði þá með einhverjum hætti kynnt fyrir hv. fjárlaganefnd að þetta væri með þessum hætti?

Mig langar líka til að spyrja hv. þingmann vegna þess að hann tók dæmi. Fordæmið var dregið skildist mér af máli frá því í fyrra sem varðar væntanlega gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans, þ.e. þegar gripið var til þess ráðs að auka hann með 500 milljarða kr. aukningu. Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Hvernig stendur það mál núna? Hefur verið dregið á þá heimild alla? Er hún öll lögð þarna til grundvallar þessari ákvörðun? Greinargerðin er frekar rýr um það hvernig staðan er. Getur hv. þingmaður upplýst þingheim betur um það hvað sé hér á ferðinni? Eigum við von á meiru af þessu? Eigum við von á því að þingmenn fari nú í stórum stíl að óska eftir frekari lánsfjárheimildum handa ríkinu? Mér þykir þetta afar óvenjulegt og kalla á mun nákvæmari skýringar af hálfu hv. þingmanns en hér hafa komið fram.