137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[15:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og það er eðlilegt að spurt sé. Það er auðvitað svo að við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár voru uppi í okkar samfélagi ákaflega sérstakar aðstæður í efnahagsmálum og ríkisfjármálum öllum svo ekki sé dýpra í árinni tekið og úrslit margra mála þá mjög á reiki. Eftir því sem unnið hefur verið að úrlausn þeirra fram eftir árinu hefur æ betur skýrst staða ríkissjóðs og þarfir ríkissjóðs á yfirstandandi ári og á næstu missirum. Ég hygg að þær fjárhæðir sem ég nefndi hér hafi allar, hver um sig, komið fram. Þær fjárhæðir sem lúta að fjármögnunarþörf ríkissjóðs vegna hallarekstrar, fjárhæðir sem lúta að endurfjármögnunarþörf viðskiptabankanna, fjárhæðir sem varða lánin frá Norðurlöndunum, sömuleiðis þær fjárhæðir sem snúa að lánum frá Rússum og Pólverjum þannig að hver og ein upphæð hefur í sjálfu sér legið fyrir.

Sú 500 milljarða heimild sem hv. þingmaður vísar til er auðvitað hluti af þeim 660 milljarða heimildum sem eru til staðar. En sem sagt, ef sækja á lánsfé þetta allt skortir á heimildir. Ég tek undir með hv. þingmanni að það kallar á vandaða umfjöllun hér í þinginu og þess vegna varð það úr að taka þetta ekki inn í afgreiðslu á bandorminum á milli umræðna heldur að flytja þetta sem sérstakt mál þannig að það fengi tryggilega þrjár umræður í þinginu og vandaða umfjöllun í nefndum þingsins á milli umræðna. Ég hef gert ráðstafanir til þess að það geti verið á dagskrá hv. efnahags- og skattanefndar þegar á morgun og ég hygg að hv. formaður fjárlaganefndar hyggist sömuleiðis á fundi nefndarinnar á morgun hefja umfjöllun um það.