137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[15:51]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessi svör að sinni. Það er alveg ljóst að þetta mál kallar á verulega mikla skoðun. Þótt það sé í sjálfu sér rétt að þær tölur sem þarna koma fram séu okkur kunnar veldur það náttúrlega töluvert mikilli furðu að þetta skuli hafa komið svo skyndilega inn í efnahags- og skattanefnd og þarna er raunin. Maður veltir fyrir sér hvort þetta hafi bara gleymst. Hvernig stendur á þessu? Þetta er náttúrlega dálítið undarlegt og nokkuð sem við þurfum þá að venja okkur af og muni ekki gerast oft hér.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann aftur um þá 500 milljarða sem við samþykktum í fyrra. Mig minnir að það hafi verið þannig að um tímabundna heimild hafi verið að ræða handa ríkisstjórninni til þess að afla þess fjár. Ég held enn fremur að sú heimild sé faktískt runnin úr gildi gagnvart þeirri lagasetningu. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvort það sé rétt skilið hjá mér að svo sé. Var hún ekki tímabundin heimildin sem við veittum árið 2008 með lögum 60/2008 til þess að draga 500 milljarða inn í þjóðarbúið? Rann hún ekki út núna um áramót?