137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst vegna fyrra andsvars frá hv. þm. Ólöfu Nordal (Gripið fram í.) get ég áréttað að þar var sannarlega um tímabundnar heimildir að ræða um að taka það á árinu 2008 og ákvæði til bráðabirgða gerir ráð fyrir að það verði endurskoðað eigi síðar en 1. janúar næstkomandi, 2010.

Það má sannarlega taka undir með ýmsum athugasemdum frá hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni. Það er auðvitað þannig að lagaheimildir þurfa að vera fyrir ráðstöfunum sem ríkisvaldið og framkvæmdarvaldið grípur til á hverjum tíma, hvort sem það eru rekstrarútgjöld eða lánsfjárheimildir eins og hér um ræðir. Því miður hefur verið misbrestur á því að svo hafi verið á undanförnum árum og mikil þörf á því að við í núverandi efnahagsástandi skerpum á því. Hér er einmitt verið að gera það. Það er verið að sækja heimildirnar fyrst áður en gengið er frá lánsfjársamningunum.

Hvað lýtur að þeim þáttum sem hann fjallaði um varðandi viðskiptabankana þá hygg ég að talsvert mikið hafi verið farið yfir peningamarkaðssjóðina. Ég ætla út af fyrir sig ekki að fullyrða um að það megi ekki gera enn frekar og enn betur. En þessi fjármögnun lýtur hins vegar ekki að því. Hún lýtur að fjármögnun nýju bankanna og því nauðsynlega eiginfjárhlutfalli sem þarf að vera í þeim. Það var talið vera 385 milljarðar og það er að hluta til vegna þess sem þessar heimildir eru sóttar. En þær fregnir hafa borist, óljóst þó enn sem komið er, að það kunni að þurfa minna fé til þess að endurreisa bankana en hér er gert ráð fyrir þannig að þetta gætu jafnvel orðið nokkuð lægri heimildir sem menn þyrftu þá á að halda til að nýta.